Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     



Efnisyfirlit:

Kirkjugarðar og skipulag
Kirkjugarðar
Rekstur kirkjugarðanna
Umsjón og verkefni
Kirkjugarðaráð
Legstaðaskrá
Áttirnar
Leiði
Grafartaka
Niðurlagðir kirkjugarðar
Merking fornra staða
Heimagrafreitir




Kirkjugarðar og skipulag
Á Íslandi eru um 255 kirkjugarðar, stórir og smáir, auk fjölda niðurlagðra garða og heimagrafreita.
Flestir þessara garða eru litlir sveitakirkjugarðar þar sem fjöldi grafa á ári er ekki mikill. Þeim er stýrt af sóknarnefndum á viðkomandi stöðum en aðeins fáir þeirra hafa sérstaka kirkjugarðsstjórn.
Stærsti kirkjugarður á Íslandi eru Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma. Þar á eftir koma Kirkjugarðar Akureyrar og Kirkjugarður Hafnarfjarðar.

Efnisyfirlit


Kirkjugarðar
Kirkjugarður er afmarkað grafarsvæði kirkjusóknar eða kirkjusókna sem vígt hefur verið. Kirkjugarðar þjóðkirkjunnar skulu vígðir af presti en heimilt er að afmarka óvígðan reit innan kirkjugarðssvæðis ef hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn samþykkir. Kirkjugarðar og grafreitir eru friðhelgir.
Það má ekki reisa mannvirki, starfrækja stofnanir eða reka fyrirtæki, sem frá stafar hávaði eða ys, í nánd við kirkjugarða.

Efnisyfirlit


Rekstur kirkjugarðanna
Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups. Sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, öðru nafni kirkjugarðsstjórn, hefur á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs. Hún sér um að láta taka allar grafir í garðinum, sér um árlegt viðhald legstaða og ber kostnað af prestþjónustu vegna útfara.

Eigendur kirkjugarða landsins eru allir landsmenn, án tillits til þess hvort þeir eru innan kirkjusafnaða eða ekki.

Fjárveitingar ríkisins til kirkjugarða eru fólgnar í lögbundnu framlagi, sem hækkar miðað við almennar forsendur fjárlaga og eykst í samræmi við stækkun grafarsvæða í umhirðu (fjölgun fermetra) og fjölgun greftrana. Hver kirkjugarður fær tekjur eftir stærð kirkjugarðs (umhirðugjald) og fjölda greftrana í garði (grafarkostnaður). Kirkjugarðaráð hefur falið Kirkjugarðasambandi Íslands að reikna út þær tekjur sem kirkjugarðar fá og eru þeir útreikningar byggðir á forsendum gjaldalíkans sem Kirkjugarðasambandið lét gera fyrir nokkrum árum.

Kirkjugarðaráð hefur yfir að ráða jöfnunarsjóði (kirkjugarðasjóður) sem allir kirkjugarðar greiða í. Úr honum eru árlega veittir styrkir til kirkjugarða sem standa höllum fæti fjárhagslega. Umsóknir um styrki hafa á undanförnum árum verið margfalt hærri en sjóðurinn hefur ráðið við en engu að síður hefur verið unnið mikið starf af hálfu framkvæmdastjóra kirkjugarðaráðs sem hefur yfirumsjón með þeim framkvæmdum.
Við úthlutun úr kirkjugarðasjóði er lögð áhersla á faglega forgangsröðun verkefna og er þeim síðan áfangaskipt og fylgt eftir á hverjum stað þar til góð heildarmynd hefur náðst.

Efnisyfirlit


Umsjón og verkefni
Verkefni kirkjugarða eru margvísleg og mikilvæg. Helstu verkefni eru þessi: Grafartaka, sumarumhirða, umsjón og skipulag á kirkjugarði, skráning legstaða, umsjón og rekstur líkhúss, rekstur útfararkapellu/-kirkju, rekstur bálstofu, og sérstakt skrifstofuhald.

Verkefnin flokkast ekki undir trúmál en að mestu undir menningar-, skipulags- og heilbrigðismál. Engu að síður eru flestar útfarir kirkjulegar, þ.e. prestar stýra langflestum þeirra.

Þrátt fyrir mikinn stærðarmun er það miklu fleira sem tengir kirkjugarða á Íslandi en það sem aðskilur þá. Nefna má viðhald garðanna og minjavernd.
Í fámennum sveitarkirkjugörðum er grafartaka og viðhald oft meira og minna unnið í sjálfboðavinnu af heimamönnum.
Kirkjugarðsstjórnum (sóknarnefndum) þessara garða veitist erfitt að fara í viðhaldsframkvæmdir, t.d. á hlöðnum veggjum og gömlum minningarmörkum, sem mörg hafa minjagildi. Þegar slíkt þarf að framkvæma er tíðum sótt um styrk í kirkjugarðasjóð.

Efnisyfirlit


Kirkjugarðaráð
Kirkjugarðaráð hefur umsjón með kirkjugörðum landsins svo sem nánar er mælt fyrir í lögum nr. 36/1993. Í því eiga sæti biskup Íslands eða fulltrúi hans, þjóðminjavörður eða fulltrúi hans, einn fulltrúi tilnefndur af Kirkjugarðasambandi Íslands, einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn fulltrúi kosinn af kirkjuþingi. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár. Biskup Íslands eða fulltrúi hans skal vera formaður kirkjugarðaráðs. Ef atkvæði falla jöfn í ráðinu ræður atkvæði biskups.
Kirkjugarðaráð ræður framkvæmdastjóra kirkjugarða og setur honum erindisbréf. Hann skal vera sérfróður um gerð og skipulag kirkjugarða. Laun hans og annar starfskostnaður, svo og kostnaður við störf kirkjugarðaráðs, greiðist úr kirkjugarðasjóði. Kirkjugarðaráð er jafnframt stjórn kirkjugarðasjóðs og fer með málefni hans, sbr. 40. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.

Efnisyfirlit


Legstaðaskrá
Kirkjugarðsstjórn og sóknarnefndir kirkjugarðanna halda legstaðaskrá í því formi sem kirkjugarðaráð ákveður. Í legstaðaskrá er ritað nafn, kennitala og staða, heimili, aldur, útfarardagur og grafarnúmer þeirra sem jarðsettir eru, jafnóðum og greftrað er, og enn fremur nöfn þeirra sem fyrir eru greftraðir í garðinum ef leiði þeirra þekkjast. Legstaðaskrár margra kirkjugarða eru á handskrifuðu formi.
Kirkjugarðsstjórnir og sóknarnefndir láta gera uppdrætti eða kort af kirkjugörðum landsins, bæði þeim sem í notkun eru og hinum sem hætt er að nota en hefur eigi verið sléttað yfir. Hverri legstaðaskrá fylgir uppdráttur eða kort af kirkjugarðinum. Á kortinu er markað fyrir legsteinum öllum og þeim leiðum sem menn vita deili á. Lýsing fylgi á minnismerkjum og skrá yfir þau leiði sem menn vita hverjir hvíla undir ásamt nöfnum þeirra og dánarári.
Til að auðvelda gerð þessara korta og aðra skipulagningu á kirkjugörðum og umhverfi þeirra hafa verið teknar loftmyndir af öllum kirkjugörðum landsins. Þessi vinna hófst árið 1989 og lauk árið 1997. Nú er unnið að kortagerð samkvæmt nýjustu tölvutækni og mun það auðvelda starfsmönnum kirkjugarða úthlutun legstæða og fólki að finna leiði í kirkjugörðum landsins.
Í lögum um kirkjugarða segir að kirkjugarðsstjórn heldur legstaðaskrá í því formi sem kirkjugarðaráð ákveður. Þar skal rita nöfn, kennitölu og stöðu, heimili, aldur, greftrunardag og grafarnúmer þeirra sem jarðsettir eru, jafnóðum og greftrað er, ennfremur nöfn þeirra sem fyrir eru greftraðir í garðinum ef leiði þeirra þekkjast. Uppdráttur að kirkjugarðinum fylgi hverri legstaðaskrá og séu mörkuð á hann leiði allra þeirra sem standa í skránni.
Legstaðaskrá skal gerð í þremur eintökum. Eitt eintakið geymist hjá kirkjugarðsstjórn, en hin eintökin skal senda ársfjórðungslega annars vegar til sóknarprests og hins vegar til legstaðaskrár kirkjugarðaráðs á netinu (www.gardur.is).

Efnisyfirlit


Áttirnar
Kirkjur snúa almennt í austur og vestur þar sem þær horfa mót austri til birtunnar. Helstu ástæður fyrir þessari legu voru trúarlegs eðlis. Í austri lá Edensgarður (1. Mós. 2.8), í austri rann Betlehemsstjarnan upp (Matt. 2.9) og eldingin sem tákn endurkomu Krists leiftrar frá austri til vesturs (Matt. 24.27).
Uppstigning Jesú Krists á Olíufjallinu var austan Jerúsalems og úr austri væntu menn endurkomu hans. Sólin rís í austri og þannig varð sérhver sólarupprás tákn fæðingar hans, upprisu og endurkomu.
Altarið, sem er aðalsvæði kirkjunnar, er í austurenda hennar. Fólk beinir bænum sínum að altarinu í eftirvæntingu vonarinnar og sömu von tjá hinir látnu í kirkjugarðinum. Hinir látnu eru lagðir til hvíldar með andliti horfandi á móti austri, í sólarátt. Sama má segja um útfarir hinna látnu þar sem andlit hins látna snýr í átt til altarisins, í austur til upprisunnar. Vestur er hins vegar andstæðan. Vestur er tákn glötunar og sólarlag tákn dauða.

Efnisyfirlit


Leiði
Allflest leiði í kirkjugarði eru merkt með krossi eða legsteini en á þeim kemur fram nafn, fæðingardagur og dánardagur einstaklings en einnig eru leiði auðkennd með tölumerki er samsvarar tölu þeirra í legstaðaskrá. Krossinn og krosstáknið á legsteinunum er tákn kærleikans í lífi og í dauða og fyrirgefningar syndanna. Krossinn er ekki tákn dauðans heldur tákn lífsins sem sigraði dauðann.
Allar grafir eru friðaðar í 75 ár. Að þeim tíma liðnum er kirkjugarðsstjórn heimilt að grafa þar að nýju eða framlengja friðun ef þess er óskað. Kirkjugarðsstjórn getur friðað leiði ef þar eru smekkleg minnismerki að mati hennar og þeim vel við haldið. Ekki eru dæmi þess á Íslandi að endurgrafið hafi verið í kirkjugarð.

Í kristnum löndum hafa kistugrafir snúið í austur og vestur og hefur kistan verið jarðsett með það í huga að ásjóna hins látna snúi í austur, þ.e. hvirfillinn snýr í vestur. Í aldaraðir hafa stærri kirkjugarðar á Norðurlöndum og í Evrópu verið skipulagðir á þann hátt, að göngustígar eru lagðir sitt hvoru megin við tvær grafaraðir og minningarmörk eru sett inn á miðju og síðan er gengið að hvorri grafarröð frá þeim stíg sem er sömu megin og grafarröðin. Þetta fyrirkomulag er fyrir hendi í Hólavallagarði, Fossvogskirkjugarði, Gufuneskirkjugarði og Kópavogskirkjugarði. Einnig er það við lýði hjá nokkrum stærri kirkjugörðum utan Reykjavíkur, t.d. hjá Kirkjugörðum Akureyrar.

Ekki skal gert lítið úr þeim skoðunum sem lýsa því að minningarmörk eigi að vera ofan við höfðalag kistu og þar eigi að signa yfir, þegar komið er að gröfinni. Í tengslum við þessar skoðanir hefur komið fram að óviðunandi sé að aðstandendur séu ekki upplýstir um að minnismerki séu sett upp við fótagafl. Slíkt valdi oft á tíðum þeim misskilningi að fólk haldi almennt að það sé að signa yfir ásjónu, þegar signt er yfir minnismerkið.

Af þessum ástæðum eru starfsmenn kirkjugarða því alls ekki mótfallnir að aðstandendur séu fræddir um skipulag garðanna. Ef þessir hlutir eru ræddir á annað borð skal á það bent, að þeir aðstandendur, sem vilji signa yfir höfðagafl, þar sem minningarmark er við fótagafl, geti það engu að síður. Þeir þurfa þá að vera meðvitaðir um það hvernig hinir látnu snúa í gröfum sínum. Eins þurfa aðstandendur að vita að það er engin trúarleg forsenda fyrir því að minningarmark eigi fremur að vera við höfðalag en við fótagafl. Minningarmörk í kirkjugörðum kristinna manna hafa allt frá frumkristni verið með ýmsum hætti, staðsetning þeirra hefur aldrei verið sáluhjálparatriði og oftar en ekki hafa engin minningarmörk verið sett upp. Aðstandendur þurfa einnig að vita að þeir sem signa yfir grafir ástvina sinna, án tillits til höfðagafls eða fótagafls, eru einnig af kristnum skilningi að biðja um guðsblessun fyrir ástvini sína, þar ræður staðsetning minnismerkis ekki úrslitum.

Hugum nú nánar að þessu skipulagi. Þar sem allar kisturnar snúa eins og gengið er að gröfunum frá sitt hvorum stígnum, er nauðsynlegt að setja minningarmörkin við fótagafl á annarri hverri röð.



Ef horft er í norður eftir grafarröðunum (sjá skýringarmynd) eru þær grafir, sem eru með minnismerki við höfðagafl, til hægri (grafarröð B) en þau sem eru vinstra megin (grafarröð A) eru með minnismerkin við fótagafl. Ef minningarmörkin væru sett við höfðagafl í grafarröð A snéru minningarmörkin öfugt við þeim sem kæmi gangandi eftir vestari stígnum og yrði komumaður við það skipulag að ganga yfir viðkomandi grafarröð og inn á miðjuna til að sjá áletrun á minnismerkjum í grafarröð A.

Fjórar meginástæður eru fyrir því að skipulagið er með þessum hætti:

  1. Það auðveldar aðstandendum að nálgast grafirnar frá göngustígunum og lesa á minningarmörkin án þess að ganga ofan á gröfunum.
  2. Umhirða er auðveldari þegar minningarmörkin eru höfð inn á miðjunni.
  3. Minningarmörk eru í hættu á vetrum, vegna snjóruðninga, væri þau staðsett við stíginn.
  4. Skipulagið auðveldar grafartöku og tryggir að hægt sé að nálgast hverja gröf frá stíg og það kemur í veg fyrir að þungar vinnuvélar aki ofan á gröfum.


Besta nýting á garðinum væri eflaust sú að sleppa öllum göngustígum, ökustígum og bílastæðum og hafa grafaraðir hverja á eftir annarri og þar með væri hægt að hafa minningarmörk við höfðagafl á öllum gröfum. Það er hins vegar óhugsandi þegar stærð garðanna er farin að skipta tugum hektara (1 ha = 10.000 m²) og þar með væru þeir sem í garðinn koma meira og minna spígsporandi á gröfum sem er mörgum viðkvæmt mál, svo ekki sé talað um keyrslu þungra vinnuvéla.

Efnisyfirlit


Grafartaka
Á Íslandi, fyrr á öldum, var lítið hugað að skipulagningu kirkjugarða. Í mörgum eldri kirkjugörðum landsins hafa margar grafir verið teknar af handahófi og svæði fyrir hvert leiði misstórt.
Kirkjugarðar Kvíabekkjarkirkju og Bægisár í Eyjafjarðarprófastsdæmi eru dæmi um það.
Margir kirkjugarðar hafa hvorki sérstaka reiti eða raðir heldur hafa grafir verið teknar þar sem best var að moka.
Í dag ber kirkjugarðsstjórn eða sóknarnefnd að sjá um að grefti sé hagað skipulega og samkvæmt uppdrætti en það er óheimilt að taka gröf annars staðar en þar sem hún leyfir eða umboðsmaður hennar.
Grafir skulu vera svo djúpar að fullur metri sé frá kistuloki á grafarbarm. Kirkjugarðsstjórn getur heimilað að tvígrafið sé í sömu gröf ef þess er óskað af hálfu vandamanna þess er grafa á og fyrir liggur samþykki vandamanna þess er þar var áður grafinn. Skal þá grafardýpt hið fyrra sinni vera 21/2 metri.

Efnisyfirlit


Niðurlagðir kirkjugarðar
Hér á landi er að finna talsverðan fjölda niðurlagðra kirkjugarða og kirkjustaða sem þekktir eru úr Íslandssögunni. Víkurgarður sem síðar var nefndur Fógetagarðurinn er dæmi um slíkan. Talið er að Þormóður sonur Þorkels mána hafi látið reisa kirkju framan við bæ sinn og gert grafreit umhverfis hana. Staður þessi var þar sem nú er horn Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Garðurinn var um 40 X 80 metrar þegar hætt var að nota hann 1838, entist hann því Reykvíkingum í rúm 800 ár. Ætla má að jarðneskar leifar 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli þar.

Efnisyfirlit


Merking fornra staða
Eitt af hlutverkum kirkjugarðasjóðs er að styrkja merkingu staða þar sem verið hafa kirkjugarðar, kirkjur eða bænahús.
Með aukinni umferð ferðamanna um landið hafa komið fram óskir um að unnt sé að finna einhverjar upplýsingar á þessum stöðum. Hér er um viðkvæmt og vandasamt verk að ræða en þegar hefur kirkjugarðaráð í samráði við Minjastofnun Íslands hugað að því hvernig standa eigi að merkingum þannig að vel fari.
Niðurlögðum kirkjugörðum er haldið nokkuð vel við. Þar eru minnismerkjum, girðingum og öðru umhverfi haldið vel við en þar er óheimilt að valda jarðraski eða reisa mannvirki nema með undanþágu. Áður en sléttað er yfir gamlan kirkjugarð semur sóknarprestur nákvæma skrá yfir öll minnismerki í garðinum og sendir biskupi. Vandamenn eiga rétt á að halda við minnismerkjum í niðurlögðum kirkjugörðum eða flytja þau burt þaðan.

Efnisyfirlit


Heimagrafreitir
Fjölmargir heimagrafreitir eru víðs vegar um land og eru þeir vígðir. Aðalsteinn Steindórsson, sem gegndi starfi umsjónarmanns kirkjugarða í 30 ár, hefur lokið úttekt á heimagrafreitum í mörgum prófastsdæmum. Þessu verkefni var hrundið af stokkunum sumarið 1993 og er úttektinni nú lokið.
Prófastar halda nákvæma skrá um heimagrafreiti í prófastsdæminu og skoða þá á yfirreiðum sínum og senda biskupi afrit af skoðunargerðum. Núgildandi lög heimila ekki að útbúnir séu heimagrafreitir en heimilt er að grafa þá sem eiga þar frátekin legstæði.

Efnisyfirlit