Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     



- Garðakirkjugarður

Söguágrip:

Garðakirkjugarður og Garðakirkja á Álftanesi

Kirkjugarður.
Kirkjugarður hefur verið við Garðakirkju frá öndverðu. Þessi gamli garður er suð-austan núverandi kirkju og liggur nokkru lægra en hún. Garðurinn var kirkjugarður Garðasóknar og þar með útfarargarður Hafnfirðinga fram til ársins 1921. Garðurinn er nú markaður hlöðnum steinveggjum á þrjá vegu en á norðurhlið er girðing.

Samþykktir og framkvæmdir.
Um aldamótin 1900 var rætt um nauðsynlega viðgerð á garðinum. Á sóknarnefndarfundi hinn 24. október 1902 er ákveðið: a) að fylla upp suðurhlutann, b) að girða norðurkantinn og vesturkantinn suður að sáluhliði, c) að setja nýjan umbúnað á sáluhliðið. Á fundi hinn 10. maí 1903 er ákvörðun um viðgerð enn frestað, en séra Jens Pálsson las upp lög um kirkjugarða og reglugerð til leiðbeiningar fyrir safnaðarfólk. Það varð svo ekki fyrr en 5 október árið 1913 að samþykkt er að fela sóknarnefnd að láta stækka garðinn og var það framkvæmt. Á sóknarnefndarfundi 1943 var Magnúsi Guðjónssyni falið að hafa eftirlit með garðinum og að sjá um friðun hans. Árið 1945 er flutt klukkna- og verkfæraskýli úr Hafnarfjarðarkirkjugarði í Garðakirkjugarð, það var 3x4 m og kom í góðar þarfir. Á fundi sóknarnefndar 19. september 1958 er samþykkt að gera nauðsynlegar endurbætur á garðinum.

Í janúar 1960 er Garðasókn endurvakin og sóknarnefnd í Hafnarfirði samþykkir 30. apríl 1960 að afhenda nýrri sóknarnefnd í Garðasókn Garðakirkjugarð til umsjónar og að greiða þangað öll gjöld úr Garðasókn frá ársbyrjun 1957. Samningur var undirritaður 1. júní 1963. Þann 2. maí 1963 hafði sóknarnefnd samþykkt að girða kirkjugarðinn og á fundi 1. júní 1967 er ákveðið að slétta garðinn og láta gera uppdrátt af honum og legstaðaskrá. Drög að legstaðaskrá voru rituð en uppdráttur því miður ekki gerður.

Stækkun Garðakirkjugarðs.
Aðalsafnaðarfundur Garðasóknar 1970 samþykkir stækkun Garðakirkjugarðs til vesturs frá gamla garðinum. Í ágúst 1972 er á vegum sveitarstjórnar lokið jarðvegsfyllingu í nýjum garðshluta svo og jarðvegsskiptum í bílastæðum við kirkjuna. Þann 10. ágúst 1973 er samþykkt að gera tillögu að girðingu og sáluhliði og uppdrátt af hinum nýja garði og tók Sigurður Björnsson, verkfræðingur og sóknarnefndarmaður, að sér að vinna það verk. Er fyrsti uppdráttur hans dagsettur 30. júní 1975. Sumarið 1975 var unnið mikið í kirkjugarðinum undir stjórn Björgólfs Þorvarðssonar, kennara, og var garðurinn það haust tilbúinn til notkunar.

Hinn nýji garðshluti, merktur A1 og B fyrir duftreiti, var vígður 24. febrúar 1976. Þá var jarðsunginn Jóhann G. Björnsson, fyrrverandi meðhjálpari, Reynihlíð í Garðabæ. Séra Bragi Friðriksson sóknarprestur helgaði garðinn og jarðsöng.

Samkvæmt fyrrgreindum uppdrætti, dagsettum 30. júní 1975 var þessi hluti 2748 fermetrar að stærð með akbrautum og stígum og rúmaði 320 grafarstæði og 340 duftreiti. Þessar tölur breyttust lítillega við endurskoðun.

Vegna fólksfjölgunar í Garðahreppi og síðar Garðabæ svo og vegna vaxandi óska frá utansóknarfólki að fá leg í Garðakirkjugarði varð fljótt ljóst að þessi fyrsta stækkun garðsins myndi ekki endast lengi. Sóknarnefnd samþykkti því einróma hinn 16. apríl 1986 að leita leyfis um verulega stækkun kirkjugarðsins í Görðum. Sigurður Björnsson lagði fram nýjan tillöguuppdrátt dagsettan 17. mars 1986. Ekki var næg grafardýpt í fyrirhuguðum garði þannig að flytja þurfti að mold til fyllingar og sá sveitarfélagið um þann verkþátt. Fyllt var í og gengið frá spildu merktri A2 vestan við garðhluta A1 Þessi hluti garðsins er 1366 fermetrar að stærð og rúmar 193 grafarstæði. Hann var vígður af séra Braga Friðrikssyni þann 7. júní 1993. Þá var jarðsungin Brynhildur Ingibjörg Jónasdóttir, ljósmóðir, fædd 8. maí 1920, látin 27. maí 1993. Jafnframt var gengið frá spildu vestur af kirkjunni og norðan við A hlutann. Þessi hluti er 1137 fermetrar og rúmar 150 grafarstæði, nú nefndur reitur F. Einnig var breytt skipulagi á duftreitum í hluta B og reitirnir stækkaðir lítillega. Eftir þessa endurskoðun urðu grafarstæði í A hluta 541 í stað 512 og duftreitir 260 í stað 340.

Þrátt fyrir þessa stækkun var ljóst að ekki mætti slá slöku við. Sigurður Björnsson hannaði stækkun garðsins til suðurs, reiti C, D og E. og lagði fram teikningar dagsettar í febrúar 1997 Á sóknarnefndarfundi 9. september 1997 er samþykkt að hefjast handa við stækkun kirkjugarðsins samkv. tilboði verktakafyrirtækisins Loftorku. Stækkun var lokið 1998. Greftrun í reit D hófst haustið 1998 og helgaði Séra Bragi friðriksson þann reit.

Eftir þessa síðustu stækkun má ætla, að garðurinn dugi fram undir 2020. Ljóst er því, að ekki er þörf að grafa í bráð í reit F vestan kirkjunnar og norðan reitar A, sem gert var ráð fyrir á fyrrgreindum tillöguuppdrætti dags. 17. mars 1986. Möguleiki er á að breyta notkun þessarar spildu og gera þarna duftgarð.

Kirkjugarðsverðir umsjón og grafartaka.
Árin 1960 til 1966 sá Óttar Proppé um garð og kirkju í smíðum. Kirkjugarðsvörður og meðhjálpari var í fyrstu Jóhann G. Björnsson í Reynihlíð, frá 1968. Þá tók Kristinn Gíslason í Hlíð við af honum og gegndi starfinu til 1986. Benedikt Björnsson er meðhjálpari, kirkju- og kirkjugarðsvörður í níu ár frá 1986 til loka september mánaðar 1995.

Ingólfur Björgvin Jónsson , sem var starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar, sá í fyrstu um grafartöku í Garðakirkjugarði. Íngólfur var eitthvað handgenginn Gesti Gamalíelssyni kirkjugarðsverði í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Örn Bergsson er ráðinn kirkjukarðsvörðir 14. nóvember 1995 og var jafnframt verktaki við grafartöku. Hann lét af störfum 31. des. 1996. Sigurbjörn Árnason er ráðinn meðhjálpari og kirkjuvörður á sóknarnefndarfundi 28. ágúst 1995. Hann tók við starfinu 1. október og tók einnig við starfi kirkjugarðsvarðar 1. janúar 1997.

Starfsmenn áhaldahúss Garðabæjar sáu um grafartöku frá 1. janúar til 1. júní 1997.

Frá 1. júní 1997 er Kjartan Matthías Antonsson nú verktaki við grafartöku.

Fimm unglingar vinna sumarstörf í kirkjugarðinum frá 15. maí til 31. ágúst ár hvert.

Sigurbjörn og starfslið hans hefur unnið frábært verk við garðinn og þykir hann vera til fyrirmyndar um útlit og hirðingu alla.

Samkvæmt uppdráttum af Garðakirkjugarði er grafarbreidd sýnd 1,20 metrar. Nokkur frávik urðu við grafartöku fyrtsu árin þannig að grafirnar voru hafðar 1 m á breidd.. Það varð til þess að grafir urðu 28 fleiri en gert var ráð fyrir á uppdráttum Sigurðar Björnssonar og endurmældi hann garðinn og lét teikna að nýju sumarið 2003. Eftir þessa endurskoðun urðu grafarstæði í A hluta 540 í stað 512 og duftreitir 260 í stað 340.

Tölvuteiknun þessarar breyttu tilhögunar annaðist Ólafur Gunnarsson verkfræðingur.

Hönnun garðs, girðingar og sáluhlið.
Sigurður Björnsson, verkfræðingur, hannaði og teiknaði stækkun garðsins, svo og girðingu um hinn nýja garð og sáluhliðið. Hann gerði útboðsgögn, sá um útboð og hafði umsjón með framkvæmdum. Andvirði allrar vinnu við hönnun og umsjón við gerð kirkjugarðsins í 14 ár, allt frá árinu 1973,. gaf hann í sjóð til kaupa á orgeli í hina nýju kapellu, sem koma átti við safnaðarheimilið Kirkjuhvol, þá sem nú er Vídalínskirkja. Gjafabréfið er dagsett á 20 ára vígsluafmæli Garðakirkju hinn 20. marz 1986. Sáluhlið var reist samkvæmt teikningu Sigurðar. Hliðgrindin var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Stálvík við Arnarvog og gaf Jón Sveinsson forstjóri, fyrir hönd stöðvarinnar, efni og vinnu við smíði og uppsetningu. Við Guðsþjónustu í Garðakirkju 15. janúar 1978 er helgað nýtt pípuorgel í kirkjunni og sáluhliðið á kirkjugarðinum. Af því tilefni er bókað: "Söfnuðurinn færir ennfremur skipasmíðastöðinni Stálvík h.f. og Sigurði Björnssyni, verkfræðingi innilegar þakkir fyrir gjöf þeirra á sáluhliði."

Hinn 22. apríl 1998 er tekið tilboði Girðingarþjónustunnar í Hafnarfirði í nýja girðingu á austur og suðurmörkum garðsinns.

Hlaðnir grjótgarðar.
Um gamla garðinn standa hlaðnir grjótgarðar á þrjá vegu. Grjótveggir þessir voru farnir að gefa sig og að hluta til farnir að hrynja enda reistir á moldarjarðvegi. Haustið 1993 var norðurhluti vesturgarðsins endurhlaðinn á óbreyttri undirstöðu. Sóknarnefnd ákvað sumarið 2003 að bjóða út jarðvegsskipti undir þeim grjótgörðum, sem eftir stóðu og að endurbyggja þá. Grjótið í görðunum var lagt til hliðar, moldin undan veggjunum grafin brott og í staðinn fyllt með möl úr Vatnsskarði. Garðarnir voru síðan endurhlaðnir á þessari frostfríu undirstöðu. Kristján Ingi Gunnarsson, skrúðgarðyrkjumeistari hjá fyrirtækinu Garðasteinn á Álftanesi, vann verkið og lauk því sumarið 2004.

Vinnuaðstaða og vélaeign.
Vestan við nýja kirkjugarðinn, reit A, stóð lítill verkfæraskúr til geymslu á garðyrkjuáhöldum o.fl. Ekki var þar nein aðstaða fyrir starfsfólk. Skúr þessi var seldur sumarið 2002.

Í stað þessa afdreps var byggt nýtt þjónustuhús, 48 fermetra timburbygging, við suð-austurhorn gamla kirkjugarðsins. Þarna er kaffistofa ásamt snyrtingu fyrir starfsfólk, og áhaldageymsla.

Garðurinn á nú tvær dráttarvélar, þrjá sláttutraktora, tvö sláttuorf, moldarvagn og fleiri smátæki.

Samvinna við Bessastaðasókn:
Á aðalsafnaðarfundi Garðasóknar 24. mars 1996 var samþykkt að heimila sóknarnefnd að semja við Bessastaðasókn um sameiginleg afnot kirkjugarðsins í Görðum. Samið var til tveggja ára fyrst í stað.

Á aðalsafnaðarfundi 22. mars 1998 var lagður fram og upplesinn samningur um samnýtingu kirkjugarða Garða- og Bessastaðasókna. Samningurinn var undirritaður 13. mars 1997.

Við gildistöku nýrra laga hinn 1. janúar 2005 nr.138 frá 20. desember 2004 um breytingu á lögum um kirkjugarða nr. 36 4. maí 1993 féll þessi samningur úr gildi.

Stærð garðsins.
Heildarstærð garðsins með gróðurreitum, götum og svæði undir þjónustuhús og moldargeymslu eru rúmir 2,6 hektarar.

Í lok desember 2008 hafa verið grafnar 695 kistur, frátekin eru 528 legstæði og laus grafarstæði eru 908. Í duftgarði hafa verið grafin 44 ker, fráteknir eru 39 reitir og lausir eru 177 duftreitir. Þetta gera samanlagt 2391 legstæði, þar af eru 1085 laus. Auk þessa er nokkuð um að duftker séu grafin ofan í eldri leiði.

Samantekið í janúar 2009

Sigurður Björnsson og Sigurbjörn Árnason

Garðakirkja:
Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi "Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll" og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20. Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag. Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna. Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928. Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.

Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju. Sú orðsending fylgdi frá biskupi, "að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa". Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp "barnauppeldisstofnun". Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur. Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800. Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson

Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

Svo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn. Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. Á fundi 11. október 1955 var ákveðið að bæta tveimur konum í nefndina og hlutu kosningu Sigurlaug Jakobsdóttir í Hraunsholti og Helga Sveinsdóttir í Görðum.

Á aðalfundi Kvenfélags Garðahrepps 2. febrúar 1954 var lagt fram svohljóðandi afsalsbréf fyrir kirkjunni, eða því sem eftir stóð af henni. "Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju ánafnar Kvenfélagi Garðahrepps fullan eignar- og umráðarétt á veggjum Garðakirkju." Á sóknarnefndarfundi í Hafnarfirði hinn 25. júní 1956 leggur prófasturinn, séra Garðar Þorsteinsson, fram beiðni Kvenfélags Garðahrepps um að fá að sjá um endurreisn Garðakirkju. Fenginn var arkitekt, Ragnar Emilsson til þess að teikna endurgerð kirkjunnar. Hann jók við turni vestan við hina hlöðnu veggi, sem fyrir voru. Í turninum var kyndiklefi í kjallara, anddyri með litlu skrúðhúsi og snyrtingu á fyrstu hæð, á annari hæð er söngloft, þ.e. aðstaða fyrir kirkjukór, og á þeirri hæð var byggður söngpallur inn í kirkjuna. Af sönglofti liggur hringstigi upp á milliloft þar sem geymdir eru fermingarkyrtlar o.fl. Af milliloftinu liggur svo hringstiginn áfram upp á klukknaloft, þar sem kirkjuklukkurnar eru, efst í risinu.

Byggingarmeistari var Sigurlinni Pétursson. Hann lét flytja líparít frá Drápuhlíðarfjalli við Stykkishólm, steypti líparítið í hellur, sem hann lagði síðan um kirkjugólfið. Kvenfélagskonurnar unnu að byggingu kirkjunnar með óbilandi atorku og dugnaði á næstu árum og var Garðakirkja reist úr rústum fyrir þeirra atbeina og endurvígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.

Fegrun umhverfis kirkjunnar 2006
Haustið 2005 og sumarið 2006 var unnið að endurgerð aðkomusvæðis vestan Garðakirkju.

Flötin framan við kirkjuna var hækkuð og þar gert hellulagt torg afmarkað með hlöðnum veggjum.

Breytingin fól m.a í sér að leggja af tröppur við innganginn og bæta þar með aðgengi allra að kirkjunni. Svæðið hlaut viðurkenningu umhverfisnefndar Garðabæjar árið 2006, fyrir smekklega útfærslu og velheppnaða framkvæmd.

Aðkomusvæðið var hannað hjá Landslagi ehf, af Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt í samstarfi við Eið Pál Birgisson.

( Heimildir: Afmælisrit, Kvenfélag Garðabæjar 10 .ara - mars 1963, 30 ára 1983 og 50 ára 2003.

Sigurlaug Árnadóttir, Morgunblaðið 21. jan. 1993. Viðtöl við séra Braga Friðriksson og Halldóru Jónsdóttur sóknarnefndarmann og Sigurbjörn Árnason kirkjugarðsvörð og Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt.)

Yfirlit um prófasta í Görðum frá 1872 til 1997
Séra Þórarinn Böðvarsson F. 3. maí 1825, d. 6. maí 1895 í Görðum á Álftanesi.
Cand theol 11. ágúst 1849. Vígður aðstoðarprestur til föður síns að Melstað 12. ágúst 1849. Veittur Vatnsfjörður 9. mars 1854. Garðar á Álftanesi 1. febrúar 1868. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 3. apríl 1872.

Séra Jens Pálsson. F. 1. apríl 1851 í Dagverðarnesi á Skagaströnd, d. 28. nóvember 1912 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 3. september 1872. Vígður aðstoðarprestur föður síns að Arnarbæli 2. nóvember 1873, veittir Þingvellir 11. janúar 1879, Útskálar 27. júlí 1886, Garðar á Álftanesi 26. september 1895. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 22. nóvember 1900 frá 1. desember s.á.

Séra Árni Björnsson. F. 1. ágúst 1863 í Höfnum á Skaga, d. 26. mars 1932 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 24. ágúst 1887. Veitt Reynistaðarprestakall 25. október 1887, vígður 6. nóvember s. ár, Garðar á Álftanesi 30. júlí 1913 frá fardögum s. ár. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 6. júní 1916. Sat í Hafnarfirði frá 1928.

Séra Garðar Þorsteinsson. F. 2. desember 1906 á Akureyri. Hann lést laugardaginn fyrir páska 14. apríl 1979 í Hafnarfirði.
Cand. theol. 13. júní 1931. Veitt Garðaprestakall á Álftanesi 18. júní 1932, vígður 23. júní 1932. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 14. maí 1954 frá 1. maí.

Séra Bragi Friðriksson. F. 15. mars 1927 á Ísafirði.
Cand. theol. 30. maí 1953. Kallaður til prestsþjónustu í Lundar-Langruth-prestakalli í Manitoba 1953, vígður 4. október sama ár. Kallaður til Gimli-prestakalls í Manitoba í júlí 1955 frá 1. október s. ár. Kom heim haustið 1956. Settur til prestsþjónustu meðal íslendinga á Keflavíkurflugvelli frá 1. janúar 1964, veitt Garðaprestakall á Álftanesi 20. maí 1966 frá 1. júní s. ár, en þjónaði jafnframt Keflavíkurflugvallarprestakalli til loka júlí. Skipaður prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 15. apríl 1977. Séra Bragi lét af störfum fyrir aldurs sakir 1. júní 1997.

Innskot:
Séra Þorsteinn Briem. F. 3. júlí1885 á Frostastöðum í Blönduhlíð, d. 16. ágúst 1949 í Reykjavík.

Cand. theol. 20. júní 1908. Vígður 11. júlí 1909 sem aðstöðarprestur Jens Pálssonar að Görðum á Álftanesi. Veitt Grundarþing 9. júní 1911, Garðar á Álftanesi 8. apríl 1913, fékk leyfi til að vera kyrr í Grundarþingum 16. maí s. á. Prestur í Görðum á Akranesi frá 1921. Skipaður prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi 10. október 1931 frá 1. s.m.

Samantekið í janúar 2009

Sigurður Björnsson, verkfræðingur.


Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna prentvænt PDF kort:

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum: Víðmyndir úr garðinum:
Garðakirkjugarður [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað:
Heimasíða kirkjugarðsins: [Skoða:]
Staðsetning á Google korti: [Skoða:]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Fjöldi þekktra legstaða:
2234
Símanúmer:
Garðabær Höfuðborgarsvæði
Netfang:
Heimasíða:
       
Einföld leit
Ef ekki finnst það sem leitað er að má reyna Flóknari leit sjá hér

Nafn eða
byrjun á nafni/ nöfnum:
Fæðingardagur:
Dánardagur: