UNNIÐ MEÐ GAMLA LAGINU

endurbætur á grafreitnum á Þönglabakka í Þorgeirsfirði

Árið 1996 ritaði Ágúst Sigurðsson, sóknarprestur að Prestbakka í Hrútafirði, grein í Dag-Tímann um grafreitinn á Þönglabakka í Þorgeirsfirði og nauðsyn þess að lagfæra hann. Ágúst hafði jafnframt sent erindi til Guðmundar Rafns Sigurðssonar hjá Skipulagsnefnd kirkjugarða og óskað eftir því að málið yrði tekið fyrir.

fjorusteinn_dreginn.jpg (24389 bytes)
Fjörusteinninn var dreginn af hesti, á gamalli járnplötu, sem leið lá úr fjörunni og á áfangastað.

Guðmundur tók erindi Ágústs vel og síðastliðið sumar varð svo af ferð manna norður í Fjörður til að vinna að málinu. Fjörðurnar fóru í eyði 1944 og var þá aðeins byggð á þremur jörðum. Kirkjan var þá felld og hús rifin og þegar Ágúst fór í ferð sína að Þönglabakka lýsti hann ástandinu sem svo: „Hlaðinn grjót- og torfgarður um grafreit kynslóða allrar byggðarsögu í Fjörðum hefur enn látið undan síga og staurstubbarnir í rekasælu plássi eru fúnir ofan á garðsveggjum og gaddavírinn ryðgaður og slitinn. Spýturnar, sem voru í sáluhliðinu, eru feysknar og farnar. Veit hliðið frá bæ, en mót vestri og kirkjudyrum. Hinn eini legsteinn í kirkjugarðinum, nema einhverjir finnist sokknir í moldina, er á leiði Ísaks Jónssonar, aðkomumanns sem drukknaði í Nykurtjörn uppi á Þorgeirshöfða."

Hópurinn sem ferðina gerði sl. sumar samanstóð af áðurnefndum Guðmundi Rafni Sigurðssyni, Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, Hjörleifi Stefánssyni, minjastjóra og Þór Sigmundssyni, steinsmið. Lagt var upp frá Laufási í Eyjafirði með gómsæta matarpakka, sem sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Guðný Sverrisdóttir, hafði látið útbúa, og ekið að Kaðalsstöðum þaðan sem gengið var vestur yfir Hvalvatnsfjarðarmýrar og ána að Tindriðastöðum. Þaðan lá leiðin yfir hálsa vestur að Þönglabakka í Þorgeirsfirði. Leiðangursmenn komu farangri fyrir í skipbrotsmannaskýli og hófust þegar handa við störf í kirkjugarðinum. Í tvo daga störfuðu menn við lagfæringarnar; gaddavírsgirðingin var fjarlægð og hlaðið var í skörð á kirkjugarðsveggnum og horn hans lagfærð. Þó varð minna úr hleðslu en áætlað var, þar sem hleðslumaður sá sem ráðinn hafði verið til verksins mætti ekki til leiks.

Legsteinninn eini var réttur af. Síðast en ekki síst völdu leiðangursmenn allstóran, sléttan stein úr fjörunni og var hann dreginn á gamalli bárujárnsplötu af hesti upp að hesthúsinu þar sem höggvin var í hann eftir-farandi áletrun: „Hér stóð Þönglabakkakirkja til 1944." Við austurgafl kirkjugrunnsins í kirkjugarðinum var hlaðinn lítilsháttar stallur og steininum komið þar fyrir. Einnig var hreinsað til og vír, staurum og járni komið fyrir í, grunni gamla Þönglabakkahússins. Er það von leiðangursmanna að með þessum lagfæringum, megi grafreiturinn á Þönglabakka áfram gleðja augu fróðleiksfúsra ferðalanga sem í síauknum mæli sækja Fjörðurnar heim.

folk_thonglabakka.jpg (21608 bytes)
Frá vinstri Hjörleifur Stefánsson, Þór Sigmundsson. „Blesi",
Stefán Kristjánsson, ÞórMagnússon og Guðmundur Rafn Sigurðsson.