Skeggjastaðakirkjugarður við Bakkafjörð:

MIKLAR ENDURBÆTUR Á 150 ÁRA AFMÆLI

Á Skeggjastöðum er elsta kirkja á Austurlandi. Þar bjó landnámsmaðurinn Hróðgeir hinn hvíti er „nam Sandvík fyrir norðan Digranes allt til Miðfjarðar" að sögn Landnámu. Prestakallið náði yfir alla suðurströnd Langaness allt fram til 1841 þegar Norður-Þingeyjarsýsla var stofnuð. Á fyrri öldum voru Skeggjastaðir höfuðból sauða- og útvegsbænda en upp úr aldamótum 1500 toguðust þeir á um staðinn, Gottskálk Nikulásson, Hólabiskup og Stefán Jónsson, Skálholtsbiskup. Biskupinn í Skálholti hafði betur enda kirkjan helguð Þorláki Þórhallssyni helga, Skálholtsbiskupi. Upp frá þessu urðu Skeggjastaðir staðarprestssetur og er staðurinn jafnan talinn fyrstur í öllum kirkna- og prestaskrám. Kirkjan sem nú stendur var upphaflega reist árið 1845, en hana lét reisa sr. Hóseas Árnason. Árið 1961- 62 var hún gerð upp og skreytt að innan af Jóni og Grétu Björnsson, auk þess sem byggt var við hana. Í kirkjunni er danskur predikunarstóll, líklega frá fyrri hluta 18. aldar og altaristafla máluð 1857 af O. Knippel. Árið 1995 var haldið upp á 150 ára afmæli kirkjunnar og var af því tilefni farið í miklar endurbætur á kirkjugarðinum og nánasta umhverfi hans. Skeggja9.4.jpg (24292 bytes)
Fyrir framkvæmdir.

 

Skeggja9.5.jpg (21226 bytes)
Framkvæmdum lokið

 

skeggaja.tei.jpg (17186 bytes) Teikning Hjörleifs Stefánssonar arkitekts af væntanlegri grjóthleðslu.

Grjótveggur var hlaðinn um þrjár hliðar garðsins og trérimlagirðing um þá fjórðu. Þessi nýi veggur leysti af hólmi gamla og fúna timburgirðingu sem nauðsynlega þurfti endurnýjunar við. Lögð var stétt úr náttúruhellum frá sáluhliði að kirkju, bílastæði lagfært og stækkað. Framkvæmdastjóri Skipulagsnefndar kirkjugarða, Guðmundur Rafn Sigurðsson, sá um hönnun skipulags, en verklegum framkvæmdum stjórnuðu hleðslumennirnir Ari Óskar Jóhannesson og Unnsteinn Elíasson. Nutu þeir góðrar aðstoðar heimamanna sem lögðu á sig mikla vinnu til að unnt væri að ljúka verkinu fyrir afmælishátíðina. Síðastliðið haust var kirkjan svo flóðlýst og leiðalýsingu komið fyrir og nú er verið að ljúka við tölvuskráningu legstaðaskrár, en um það verk sér Bjarni Jónsson sóknarnefndarformaður.