Steinn Steinunnar
 
 
 
Steinunn Jóhannesdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í Alþýðublaðinu 13. október 1964 birtist eftirfarandi frétt eftir OÓ:
"Fundinn er við Hvalsnesskirkju legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms Péturssonar. Steinn þessi hefur verið týndur í hátt á aðra öld, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hafa upp á honum."
Síðan segir frá því hvernig bóndinn á Bala, Guðmundur Guðmundsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar hafi verið að vinna við að steypa stétt upp að kirkjunni og ætlað að fjarlægja steina sem standa myndu upp úr steypunni. ãByrjar hann á steini sem stóð við norð(vestur)- horn kirkjunnar og ætlar að velta honum við og nota í uppfyllingu undir steypuna. Kemur þá í ljós, að letur var á steininum, vel læsilegt. Lét hann Gísla [Guðmundson] kirkjuhaldara þegar vita af fundinum, sem við nánari athugun sá að hér var um að ræða legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur".
Í greininni kemur fram að menn hafi vitað um tilvist þessa steins því um hann hafi verið heimildir í gömlum skrifum en þó var ekki vitað hvar hann var fyrr en hann kom upp í tengslum við kirkjubyggingu í Hvalsnesi árið 1820. Síðan hafi hann glatast á ný og hvorki Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi, né Matthías Þórðarson þjóðminjavörður fundið hann þrátt fyrir ítrekaða leit í byrjun þessarar aldar. ãÁreiðanlega hafa þeir báðir gengið á honum" segir svo, "því hann er búinn að liggja á hvolfi fyrir utan kirkjudyrnar síðan hún var byggð fyrir 77 árum [1887]." Síðan heldur greinarhöfundur áfram:
"Legsteinninn er gerður úr sléttri grásteinshellu sem sennilega hefur verið um 70 sm. á kant en höggvið hefur verið utan af honum svo hann félli betur í hleðsluna sem hann var notaður í. Við þessar lagfæringar skemmdist letur steinsins nokkuð, en enn er vel læsilegt:

STEINU
HALLGRIM
DOTTI
164..."

Steinninn og ljóðin

Niðurlag greinarinnar er eftirfarandi: "Talið er líklegt að séra Hallgrímur hafi sjálfur höggvið þennan stein. Hann þjónaði í Hvalsnesi í 7 ár, frá 1644 til «51, hefur Steinunn því bæði fæðst og látist þar, en hún var þriggja og hálfs árs gömul er hún dó. Var hún mjög efnilegt barn og tregaði faðir hennar hana mikið og orti eftir hana tvenn eftirmæli."
Nokkrum árum frá þessum merka fundi lýsir Snorri Hjartarson þeim áhrifum sem hann varð fyrir þegar hann sá legsteininn yfir litlu dóttur skáldbróður síns.

Á Hvalsnesi

      Kirkja við opið haf

      Í kórnum lýt ég skörðum
      steini, fer augum og höndum
      um letrið, um helgan dóm

      Sé lotinn mann, heyri glamur
      af hamri og meitli, sé tár
      hrökkva í grátt rykið

      Sé hann hagræða hellunni á gröf
      síns eftirlætis og yndis,
      og ljóðið og steinninn verða eitt

      Ég geng út í hlýjan blæinn
      og finnst hafið sjálft ekki stærra
      en heilög sorg þessa smiðs.*

Maður þarf ekki að vera skáld á borð við Snorra Hjartarson til þess að fyllast lotningu frammi fyrir þessum grófhamraða steini. Þegar ég hóf að skrifa leikrit mitt um eiginkonu sálmaskáldsins Guðríði Símonardóttur, sem ber titilinn Heimur Guðríðar Ð Síðasta heimsókn Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms, gerði ég mér ferð í Hvalsnes til þess að taka á steininum. Snerta steininn, finna þyngd hans, ráða ekki við hann, fara fingrum um stórkarlalega stafina sem gefa svo margt til kynna um manninn sem hjó þá. Seinna fékk ég leyfi til þess að hafa fyrsta samlestur á leikritinu í kirkjunni til þess að leikararnir mættu einnig komast í snertingu við steininn og umhverfi hans.

Þyngd steinsins

Það er þyngd steinsins og stafagerðin sem grípa mann sterkustum tökum. Er það á eins manns færi að lyfta honum?
Vegna þeirrar greinar sem hér birtist hafði ég samband við Sigurbjörn Stefánsson bónda í Nesjum í Hvalsneshverfi til þess að kanna hvort fyrir lægju upplýsingar um þyngd steinsins. Þær voru ekki haldbærar en sóknarnefndarformaðurinn, Reynir Sveinsson, bauðst til þess að ganga úr skugga um það. Hann fór síðan með baðvigtina sína til kirkju og lyfti steininum með aðstoð Bryndísar Gunnarsdóttur sóknarnefndarkonu upp á vogina. Steinninn reyndist vera 110 kg. Og þyngri var hann, áður en höggvið var af honum til þess að hann yrði þénugri sem gangstéttarhella.
Það var víst enginn aukvisi sem valdi þessa voldugu grjóthellu og bar heim í smiðju og síðan að gröf barnsins eftir að hafa meitlað í hana nafn litlu dóttur sinnar og dánarár. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR 1649. Það er eins og heljarafl sorgarinnar hafi gert manninn tröllsterkan. Hallgrímur hefur verið um það bil 35 ára og heimildir segja að hann hafi verið stór vexti. Því má vel hugsa sér að þessi fyrrverandi járnsmíðanemi og sjómaður hafi verið rammur að afli. Gróf stafagerðin er síðan til vitnis um að þarna var ekki vanur steinsmiður að verki heldur faðir barnsins að tjá sorg sína og missi í vanmætti sínum.

Dótturtorrek

Maður sér fyrir sér frumstæð verkfæri hins fátæka prests, heyrir glamur af hamri og meitli, sér tár hrökkva í grátt rykið, sér hann hagræða hellunni á gröf síns eftirlætis og yndis, og ljóðið og steinninn verða eitt, allt eins og Snorri orðaði það. Ljóðið munu margir lesendur Bautasteins kannast við. Eftirmælin, sem í raun eru tvenn og vefast saman í eitt máttugt harmljóð, dótturtorrek, eftir þessa litlu stúlku sem Hallgrímur segir með eigin orðum að hafi verið svo næm skynsöm, ljúf í lyndi.
Steinunn mín litla hvílist nú, skrifar hann til að sefa sorg sína.
Og úr ljóði Hallgríms fást þær upplýsingar að hún hafi aðeins verið þriggja og hálfs árs þegar hún dó. Hálft fjórða ár alls var ævi, eigi þó fullkomin, segir pabbi hennar.

Óvenjulegur maður

Það er mikið haft við svo lítið barn að yrkja eftir það dýr ljóð og leggja stein á gröf þess á tímum, þegar barnadauði var daglegt brauð hinna fátæku og sneyddi ekki heldur hjá húsum hinna ríku. Það bendir til þess að Steinunn Hallgrímsdóttir hafi verið einstaklega efnilegt og heillandi barn ellegar faðir hennar óvenjulegur maður. Og auðvitað var umræddur faðir óvenjulegur maður. Og konan hans, móðir barnsins, átti að baki óvenjulega ævi. Hún hafði lent í herleiðingunni miklu til Alsír 1627 í Tyrkjaráninu svokallaða og var ein örfárra sem áttu afturkvæmt. Fundum þeirra bar saman í Kaupmannahöfn haustið 1636 og er ekki ætlunin að rekja langa sögu þeirra hér. Þó er rétt að minna á að fyrstu sjö búskaparár sín bjuggu þau við fátækt og allsleysi á Suðurnesjum þar til Hallgrímur var vígður til prests í Hvalsnesi þrítugur að aldri.

Leppalúðakvæði

Í Hvalsnesi fór andlegt atgerfi Hallgríms smám saman að njóta sín. Þegar hann losnaði úr mesta baslinu og púlsvinnunni hóf hann að leggja rækt við skáldgáfu sína og skemmti fjölskyldu sinni og sveitungum með löngum rímnaflokkum af miðaldahetjum og riddurum og fleiri veraldlegum kvæðum. Nýlega var t.d. rakið til hans geysiskemmtilegt Leppalúðakvæði í 53 erindum þar sem hann nafngreinir þrjú börn þeirra hjóna, Eyjólf, Guðmund og Steinunni litlu. Leppalúði er að leita að óþægum börnum í pottinn handa Grýlu og falast eftir litlu systkinunum í Hvalsnesi. Þar eru m.a. þessi erindi:

      Sagt er mér hún Steinunn
      hríni so hátt,
      hún banni henni móður sinni
      svefninn um nátt.

      Hún banni henni móður sinni
      vinnuna og værð,
      oft er hún fyrir ærslin
      og óvandann kærð. **

Minnisvarði um fæðingu skálds

Þegar Steinunn litla hættir að ærslast og óþekktast og hrín ekki lengur á nóttunni verða stóru hvörfin í lífi Hallgríms, bæði sem manns og skálds. Sorg hans er þvílík. Hann er óhuggandi. Hann æðir upp í heiðina, rásar um grjótauðnina sem umlykur Hvalsneshverfi, rekst á steininn, hann tekur steininn fangbrögðum, lyftir meira en hundrað kílóum, kemur þessu flykki heim í smiðju og byrjar að höggva í hann stafina hennar. STEINUNN HALLGRÍMSDÓTTIR. Upp úr þessum átökum verður kvæðið til sem gert hefur litlu stúlkuna og dauðastríð hennar ódauðlegt. Eftir þessar aflraunir er Hallgrímur breyttur maður. Hann er nýtt skáld. Hagyrðingurinn og höfundur rímnanna víkja til hliðar en trúarskáldið Hallgrímur Pétursson stígur fram.
Steinn Steinunnar í Hvalsnesi er ekki aðeins voldugur minnisvarði yfir lítið barn hann er til vitnis um fæðingu mikils skálds.
Steinunn Jóhannesdóttir
rithöfundur


* Snorri Hjartarson. Hauströkkrið yfir mér. Mál og menning, Reykjavík 1979.Þ
** Jón Samsonarson. Leppalúði Hallgríms Péturssonar. Þorlákstíðir. Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen, Reykjavík 1996.


Þröstur Leó Gunnarsson í hlutverki Hallgríms í Heimi Guðríðar. Steinninn sem líktist steininum í Hvalsnesi að lögun er úr Steinsmiðju S. Helgasonar og vegur milli 40 og 50 kíló. Leikarinn lyftir steininum upp í fang sér og ver hann nokkurn spöl í hverri sýningu.

Ljósm. Morgunbl. Kristinn Ingvarsson


Þröstur Leó Gunnarsson leikari tekur á steini Steinunnar Hallgrímsdóttur í Hvalsneskirkju. Steinninn er 110 kg.

Ljósm. Steinunn Jóhannesdóttir