Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Jóhanna Þorsteinsdóttir
Heimili:
Lindargötu 2
Fæðingardagur:
10-12-1941
Staða:
-
Dánardagur:
23-05-2010
Kirkjugarður:
Siglufjarðarkirkjugarður
Jarðsetningardagur:
31-07-2010
Reitur:
A-13
Annað:
Duftker
Senda athugasemd.

Ítarefni. Þessar greinar eru teknar saman af aðstandendum.

Jóhanna Steinunn Þorsteinsdóttir fæddist í Siglufirði 10. desember 1941 og lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 23. Maí 2010.

Foreldrar hennar voru Sigríður Pétursdóttir, fædd 30. apríl 1915, d. 18. nóvember 1991 og Þorsteinn Sveinsson, fæddur 6. febrúar 1906, d. 20. apríl 1965. Fjölskyldan bjó að Laugarvegi 9. Systkini Jóhönnu eru Sveinn Þorsteinsson, hann er giftur Bertu Jóhannsdóttur og eiga þau 5 börn, og Fanney Þorsteinsdóttir, hún er gift Hilmari Sverrissyni og eiga þau 2 börn. Jóhanna var einhleyp og bjó lengst af með móður sinni á Laugarvegi 9, Siglufirði, en bjó síðast á Lindargötu 2. Hún vann lengi á Hótel Höfn, hún vann við ræstingar og einnig í eldhúsi Sjúkrahúss Siglufjarðar. Útför Jóhönnu fer fram frá Siglufjarðarkirkju 5. júní kl.11.

 

Minningargreinar:

  

Elsku jóhanna mín. Á þessum tímamótum koma margar minningar upp í hugann og ekki ætla ég að pára það allt en langar þó að setja á blað þetta fallega ljóð sem segir svo mikið í þó svo fáum orðum.


Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt og hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Já, minning þín mun alltaf lifa. Með tárum og trega kveð ég þig.

Þín systir, Fanney.

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Það þarf fólk eins og þig,
fyrir fólk eins og mig...

Elsku systir, þegar ég hugsa til þín koma þessi orð upp í hugann. Ég hugsa líka til bernskunnar sem við áttum í foreldrahúsum að Laugarvegi 9 og er mér minnisstætt þegar við vorum veik heima og pabbi og mamma voru bæði að vinna, að þá dugði okkur að fá að skoða jólakortin sem geymd voruí stórum konfektkassa og voru frá umliðnum árum. Nú dugar ekkert minna en tölvur, tölvuleikir og sjónvarp. Svo kom litla systir sem reyndist okkur svo stór á lífsleiðinni. Jóhanna mín þér var svo annt um allt þitt fólk og þú tókst virkan þátt í gleði- og sorgarstundum okkar.

Þín verður sárt saknað á Hvanneyrarbrautinni, það leið varla sú helgi síðustu árin, að þú kæmir ekki í heimsókn, jól og aðrar hátíðarstundir verða litlausari án þín, en minningin lifir.

Ég trúi því að það hafi verið tekið vel á móti þér á öðru tilverustigi og pabbi og mamma séu þér við hlið.

Með þessum fáu orðum viljum við Berta þakka þér samfylgdina á lífsleiðinni.

 

Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H.)

 

Þinn bróðir, Sveinn.

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Það var árið 1973 sem ég kynntist tilvonandi mágkonu minni, Jóhönnu, þá kom ég í fyrsta sinn á Laugarveg 9 og urðum við strax hinir mestu mátar. Alltaf var vel tekið á móti okkur þegar við komum norður, snúist og dekrað á allan hátt. Henni þótti heldur ekkert leiðinlegt að koma suður. Ef það var á sumartíma var farið í smá ferðalag og átti Jóhanna vegakort hjá okkur sem alltaf var merkt inn á þær leiðir sem búið var að fara. Og gaman þótti henni þegar við sigldum til Vestmannaeyja. Allir sem þekktu Jóhönnu vissu að þar var væn kona á ferð. Hún var sérlega hrifin af börnum og nutu okkar börn þess alla tíð. Og gleðilegt var að hún fékk að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn okkar sem kom að sunnan 2 mánaða og fékk að lúra hjá frænku sinni.

Kæra mágkona

 

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

 

Með þessum orðum kveð ég þig að leiðarlokum með þakklæti fyrir allt.

Þinn mágur, Hilmar.

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Ég kveð uppáhaldfrænku mína með söknuði eftir erfið veikindi hennar sem gátu aðeins endað á einn veg. Það var átakanlegt að fara til Siglufjarðar og kveðja hana í síðasta sinn, en jafnframt þakklætisvert að fá að gera það og eiga með henni stund.

Jóhanna frænka var alltaf í uppáhaldi hjá mér og mér þótti afar vænt um hana. Hún minnti mig líka svo oft á góðar stundir með ömmu Siggu, en þær mæðgur voru stór hluti af lífi mínu.

Það var alveg sama hvenær maður talaði við Jóhönnu, hún var alltaf í góðu skapi og jákvæð umfram allt, en það mættu margir taka sér til fyrirmyndar. Hún var alltaf jafn hlýleg og góð í sér, þegar hún til dæmis bjó með ömmu, hljóp hún ævinlega til með veitingar og annað slíkt og stjanaði við mann í hvert sinn er maður dvalid hjá þeim.

Þá átti ég ófáan leikfangabílinn sem hún færði mér á mínum yngri árum. Hún kom allta færandi hendi hvort sem það var uppáhald úr bakaríinu eða hvað annað sem hún fann hjá sér. Ég minnist frænku minnar einnig fyrir dugnað og fleira gott og nefni sem dæmi að maður heyrði aldrei Jóhönnu kvarta yfir einu né neinu og hún kveinkaði sér ekki.

Hún á margan gullmolann og skemmtileg tilsvör sem lifa í minningunni og það er erfitt að sleppa takinu af henni og heyra ekki í henni framar. Við Dóra töluðum oft við Jóhönnu í síma og kíktum á hana í hvert skipti sem tækifæri gafst og við heimsóttum Siglufjörð.

Eftir að fjölskyldan festi svo kaup á íbúð á Siglufirði leit út fyrir að auðveldara yrði að vera meira með Jóhönnu þar sem hún átti orðið erfitt með að ferðast sjálf, en sá tími leið alltof fljótt og varð miklu styttri en okkur óraði fyrir.

Ég vil að lokum segja að ég mun sakna uppáhaldsfrænku minnar mikið og vona að hún sé á betri stað í dag og dvelji þar ásamt ömmu Siggu og öðrum englum.

Sverrir Rúnar Hilmarsson.

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Elsku Jóhanna frænka. Ótal minningar flæða í gegnum hugann þegar ég hugsa um þig. Bæði þær stundir sem við áttum saman á Siglufirði, þær sem við áttum saman þegar þú varst hér fyrir sunnan fyrir utan allan þann tíma sem við töluðum saman í síma.

Það var alltaf mikil tilhlökkun að koma til ykkar ömmu á sumrin, þá varst þú alltaf tilbúin með allt sem mér þótti best og dekraðir við mig á allan hátt. Þeir voru líka skemmtilegir dagarnir hér fyrir sunnan sem við áttum tvær saman eftir að ég eignaðist eigin íbúð. Brösuðum þá eitthvað yfir daginn, fórum jafnvel í heita pottinn og oftast enduðum við á að elda eitthvað og bjóða þeim hinum í mat, þú passaðir þá alltaf að við myndum nú örugglega bjóða öllum sem þér fannst að ættu að koma.

Þú fylgdist alla tíð vel með mér og því sem ég var að gera, varst meðvituð um hvenær ég væri í skólanum á sínum tíma og hvenær ég væri í hvaða vinnu. Fyrir hverja stórhátíð hafðir þú áhyggjur af því hvort ég væri að vinna því það fannst þér alveg ótækt.

Báðum þótti okkur gaman að prjóna og oft sátum við saman hvor með sitt stykkið eða þá að ég prjónaði og losaðir garnið af dokkunum fyrir mig. Oft lumaðir þú að mér prjónauppskriftum og varst þá gjarnan búin að merkja við þær sem þér þótti fallegastar og fannst að ég ætti að gera. Eins var með mataruppskriftirnar og nú nýlega sendir þú mér blað með köku sem þér fannst flott og Hilmar Ingi þyrfti að fá þegar hann verður 1 árs - sem ég að sjálfsögðu mun gera handa honum. Mér þykir svo vænt um að hafa getað komið með hann til þín og leyft honum að knúsa frænku sína og kúra hjá þér á síðustu dögunum þínum. Hann mun því miður ekki fá að njóta þín meir en ég veit þú munt fylgjast með honum og ég mun segja honum frá þér. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, ég mun aldrei gleyma þér.

Þín frænka, Sigríður Rut.

 

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Elsku vinkona mín frá æsku hefur kvatt okkur og er farin til ástina sinna.

Jóhanna var mín fyrsta leiksystir, mæður okkar voru vinkonur og mikill samgangur milli heimila. Við hittumst nærri daglega og lékum saman, fórum oft í berjamó þar sem Jóhanna passaði að ég týndi ekki fötunum mínum og því sem við vorum  með því hún var ótrúlega minnug á hvar ég henti öllu af mér. Og svo var kirkja á sunnudögum og bíó og kannski líka samkoma hjá Hjálpræðishernum.

Didda móðir hennar var mjög góð við mig og trygg alla tíð og á ég henni margt að þakka. Þær mæðgur bjuggu saman meðan móðir hennar lifði en eftir það átti Jóhanna heimili á sambýlinu á Lindargötunni og þar leið henni vel í fallega herberginu sínu hjá góða fólkinu þar.

Hún elskaði systkini sín mikið og allt þeirra fólk og þegar ég hitti hana á Sigló vissi hún hvar allir voru og ljómaði þegar hún sagði mér fréttir af þeim.

Ég kveð hana með söknuði og þakklæti fyrir vináttu hennar og tryggð við mig.

 

Þú sofnað hefur síðasta blund
í sælli von um endurfund,
nú englar Drottins undurhljótt
þér yfir vaki - sofðu rótt.
(Aðalbjörg Magnúsdóttir.)

 

Sólborg Guðmundsdóttir (Lóa).

-------------------------------------------------------------------------------------------

 

Okkur langar að skrifa nokkur orð um vinkonu okkar Jóhönnu Þorsteinsdóttur.

Jóhanna hefur búið á Sambýlinu, Lindargötu 2, Siglufirði, frá vordögum 1992.

Jóhanna var sjálfstæð kona, dugleg vinnusöm. Hún var hrifin af fallegum hlutum og vildi hafa fínt í kringum sig og var alltaf fín til fara. Hún hafði gaman af tónlist og fór oft á tónleika og á mannamót.

Jóhanna átti mjög góða fjölskyldu, tvö systkini sem voru henni sérstaklega góð og hún fylgdist vel með fjölskyldum þeirra og hafði mikið samband við þau, oft daglega.

Jóhanna stundaði vinnu í Iðju/Dagvist, Siglufirði, og átti þar góða vini sem þakka henni kærlega fyrir samfylgdina.

Hún stundaði boccia meðan heilsa hennar leyfði og fór í ferðalög með Snerpufélögum á íþróttamót.

Hún hafði yndi af ferðalögum og ferðaðist mikið með Sambýlinu, bæði innanlands og utan. Með okkur fór hún 5 sinnum í sólarlandaferðir. Einnig fór Sambýlið alltaf eina viku árlega að Botni í Eyjafirði og var þaðan farið í nágrannasveitir og til Akureyrar. Þessum ferðalögum hafði hún mikla ánægju af.

Hún var góður vinur vina sinna og hjálpsöm ef einhver átti um sárt að binda.

Nú þegar að leiðarlokum er komið viljum við þakka Jóhönnu fyrir samfylgdina og allar góðu stundirnar sem við áttum saman og biðjum guð að styrkja ættingja og vini.

Hennar er sárt saknað. Guð blessi minningu Jóhönnu.

 

Sorgin er gríma gleðinnar.
Og lindin, sem er uppspretta gleðinnar, var oft full af tárum.
Og hvernig ætti það öðruvísi að vera?
Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta manns,
þeim mun meiri gleði getur það rúmað.
(Úr Spámanninum e. Kahlil Gibran).

 

                Fyrir hönd sambýlisins við Lindargötu. Sigurleif Þorsteinsdóttir.

   


Söguágrip:
Siglufjarðarkirkjugarður er í Siglufjarðarprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Kirkja hefur verið í Siglufirði síðan 1614 en var áður á Siglunesi. Núverandi kirkja var vígð 1932. Árið 1974 voru settir steindir gluggar í kirkjuna, teiknaðir af Maríu Katzgrau. Siglufjarðarkirkja á marga góða gripi, meðal annars altaristöflun frá 1726 er sýnir síðustu kvöldmáltíðina, aðra frá 1903 eftir Anker Lund er sýnir Krist í grasgarðinum, og hina þriðju eftir Gunnlaug Blöndal er sýnir Krist birtast sjómönnum í hafsnauð. Skírnarfontur er eftir Ríkharð Jónsson.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Engar myndir frá garði! Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Skúli Jónsson
Fjöldi þekktra legstaða:
400
Símanúmer:
Prófastsdæmi:
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: