Prenta síðu á Gardur.is



Einstaklingurinn:
Nafn:
Þorsteinn Erlingsson
Heimili:
Þingholtsstræti 33
Fæðingardagur:
27-09-1858
Staða:
Skáld
Dánardagur:
28-09-1914
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1914
Reitur:
Z-419
Annað:

Ítarefni.Þessi grein er kostuð af KGRP

Þjóðskáld og hugsjónarmaður:
Þorsteinn Erlingsson

Þorsteinn Erlingsson var fæddur í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum 27. september 1858, sonur Erlings Pálssonar að Árhrauni og k.h. Þóru Jónsdóttur frá Stóru-Mörk. Var fæðingin erfið, enda var Þorsteinn tvíburi; var móðirin hætt komin, en sjálfur handleggsbrotnaði hann í fæðingunni. Meðal frænda hans voru Tómas Sæmundsson, Magnús Stephensen landhöfðingi og séra Páll Jónsson 'skáldi'. Þorsteinn var fjögurra vikna að aldri settur í fóstur hjá ættingjum í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð, á fornum söguslóðum Njálu, en þar er fagurt bæjarstæði með mikla yfirsýn yfir Markarfljót, Eyjafjallajökul og Vestmannaeyjar. Höfðu Bjarni Thorarensen og Jónas Hallgrímsson gert héraðið víðfrægt í ljóðum. Sumarið 1876 áttu tvö yngri þjóðskáld, Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinson, leið um Fljótshlíð. Fyrir atbeina Jóns Jónssonar, söðlasmiðs og fróðleiksmanns í Hlíðarendakoti, uppgötvuðu þeir atgervispiltinn Þorstein, sem þeim þótti gott mannsefni. Kenndi Steingrímur honum latínu um veturinn, "en að öðru leyti dvaldi hann mest hjá okkur, og útvegaði eg honum töluverðan fjárstyrk hjá góðum mönnum," skrifaði Matthías síðar. Einnig naut hann kennslu hjá þeim þjóðskáldunum Matthíasi og Benedikt Gröndal þann sama vetur. Þorsteinn var tekinn í Reykjavíkurskóla 1877 og varð stúdent með 1. einkunn 1883. Sigldi hann svo til Kaupmannahafnar og stundaði frá komandi hausti lögfræðinám í háskólanum. Cand. phil. varð hann 1884. Lét hann þó af lögfræðinámi um fjórum árum seinna, missti þá og Garðstyrkinn, lagði þó stund á málfræði og bókmenntir, einkum forníslenzkar, og hafði um tíma ofan af fyrir sér með tímakennslu, m.a. í íslenzku. Bjó hann þá við mikla fátækt og svo lítið viðurværi, að alvarlega kom niður á heilsu hans, raunar allt til æviloka, en það gaf honum líka aukna samkennd með fátæklingum og þeim, sem órétti voru beittir. Um skeið lagði hann stund á fornminjarannsóknir að tilhlutan efnakonu bandarískrar, kannaði bæjarústir á Suður- og Vesturlandi í því sambandi og birti niðurstöður þeirra í bók á ensku. Einnig fór hann í þessu skyni með dr. Valtý Guðmundssyni á meintar slóðir Vínlandsfara við Charles River, sem skilur Boston-borg frá Cambridge í Massachusetts. Sigldi hann til baka til Hamborgar og ferðaðist þá um Þýzkaland, en kom alkominn heim haustið 1896. Hann var ritstjóri Bjarka á Seyðisfirði 1896?1900 og Arnfirðings á Bíldudal og í Reykjavík 1901?3, en var þá mjög orðinn afhuga blaðamennsku. Hann safnaði ennfremur þjóðsögum og skráði þær. Var hann í Reykjavík frá 1902, sinnti tímakennslu og annarri tækifærisvinnu, hafði að auki nokkurn skáldstyrk úr landssjóði frá 1895 til æviloka, en bjó þó oftast við afar kröpp kjör. Var hann þó mjög hamingjusamur með seinni konu sinni á Reykjavíkurárunum. Hann lézt þar úr lungnabólgu daginn eftir 56. afmælisdag sinn, 28. september 1914, og varð öllum almenningi harmdauði.


Fyrsta kvæði Þorsteins birtist í Þjóðólfi 1876. Er raunar fátt varðveitt af ljóðum hans frá því áður en hann kom í skóla, en allnokkuð frá skólaárunum; það helzta af því er prentað í Söngvum og kvæðum, sem Jónas Helgason gaf út 1881, og í Söngkennslubók hins sama frá 1883. Var Þorsteinn á þeim árum lærisveinn Steingríms Thorsteinsonar í ljóðum sínum, fáguðum og þýðum. Voru sum þeirra ort undir vinsælum sönglögum og komust því fljótt á alþýðu varir. Meðal þeirra er þetta þekkta vers úr kvæðinu 'Kvöld':
Nú blika við sólarlag sædjúpin köld,
ó, svona´ ætti´ að vera hvert einasta kvöld,
með hreinan og ljúfan og heilnæman blæ
og himininn bláan og speglandi sæ.


Eftir fjögurra ára dvöl í Kaupmannahöfn kvaddi hann sér hljóðs með nýjum og ólíkum hætti í kvæðinu 'Rask', helgað aldarafmæli þess menningarfrömuðar, en um leið var þar farið óvægnum orðum um stjórn Dana á Íslandi fyrr og síðar. Ljóðið var prentað og sungið á fundi í Íslendingafélaginu og vakti mikla athygli í Höfn og á Íslandi fyrir sinn róttæka boðskap. Skáldið fekk munnlega ofanígjöf af hálfu skólayfirvalda, en Hafnarstúdentar "færðu honum að gjöf pennastöng úr fílabeini og gulli til minja um þennan atburð." ? Breyting var nú orðin á skáldskaparstefnu Þorsteins, og varð hann að gefa ljóðum sínum langan tíma til að búa þeim þann búning sem hann væri sáttur við. "Margt togaðist á um hann, gamalt og nýtt, íslenzkt og erlent," segir Sigurður Nordal, og átti hann m.a. sterkar rætur í kveðskap alþýðuskálda eins og Sigurðar Breiðfjörð og fann síðar mikinn samhljóm í anda og ljóðum við vin sinn Pál Ólafsson. En á Hafnarárunum tók hann líka ástfóstri við annað skáld og ólíkt, en það var Byron lávarður; sér þess merki í ljóðagerð Þorsteins, m.a. í 'Jörundi', sem er sögukvæði með ádeilukenndum útúrdúrum, í hinu mikla kvæði 'Eden' og í kvæðaflokkinum 'Eiðnum'. En þó að Þorsteinn hafi orðið þjóðkunnugt skáld þegar á Hafnarárum sínum, orti hann þar lengi vel lítið, fyrr en hann var nærri 34ra ára gamall, en þá byrjaði hann að halda kvæðum sínum saman í skrifaðri bók. Hann birti mörg kvæði í hinu nýja tímariti Sunnanfara frá 1891, undir verndarvæng dr. Jóns Þorkelssonar ritstjóra, en hvarf frá honum til dr. Valtýs, þegar hann hóf útgáfu Eimreiðarinnar 1895. Var Þorsteinn þá enn að ýmsu leyti undir áhrifum frá rómantíkinni, en jafnframt orti hann fjölda kvæða í anda raunsæisstefnunnar, enda var hann einn þeirra Íslendinga, sem sóttu fyrirlestra hjá Georg Brandes í Kaupmannahöfn (sem kom aftur þangað úr hálfgildings útlegð 1883); hrifust menn af umbyltandi hugmyndum hans í bókmenntum og andlegu lífi. Þorsteinn varð eindreginn jafnaðarmaður, deildi hart á félagslega misskiptingu og þröngsýni og hlífði heldur ekki kirkju- og kennivaldi í því samhengi. Ungur hafði hann haft ríka trúarkennd og ort í þeim anda, og á útskriftarári hans úr menntaskólanum snerist hann öndverður við tilraunum Gests Pálssonar skálds til að gera hann fráhverfan "trú á guð, eilífð eða ódauðlega sál í manninum." Nú, á Hafnarslóð, varpaði hann trúnni fyrir róða, gerðist, þrátt fyrir að dragast að hinu "fagra, þýða og klökkva" (SN), "að nokkru leyti mestur raunsæismanna ? uppreistarmaður því nær á móti vilja sínum" (Stef.Ein.). Ægði mörgum sú róttækni hans og uppreisn gegn konungi og kirkju, t.d. í ljóðinu 'Örlög guðanna', sem birtist í Sunnanfara haustið 1891. Margt af þessu efni miðaðist við danskar aðstæður, þar sem stéttaandstæður voru meiri en hér heima. Illt hlutskipti olnbogabarna samfélagsins, meðan aðrir auðgast og njóta virðingar leikra sem lærðra, fær hann, t.d. í kvæðinu 'Örbirgð og auður', til að beita hvassri háðsádeilu:


Þú fjelaus maður mátt hjer líða nauð
og munt í Víti síðar kenna á hörðu;
en takist þjer að eiga nógan auð,
þig einglar geyma bæði á himni og jörðu.


Gekk þó skáldið mun lengra í bitrustu ádeiluljóðum sínum. En það mun rétt, sem séra Magnús Helgason, skólastjóri Kennaraskólans, sagði í líkræðu yfir Þorsteini, að innfjálg óbeit hans og gremja, jafnvel hatur, yfir því, sem honum þótti illt og ljótt, hafi verið "önnur hlið mannkærleikans." Sú hlýja réttlætiskennd hans snerti umfram allt mannfélagið sjálft og eins t.d. mannúðlega meðferð dýra. ? Seinustu Hafnarárin urðu Þorsteini í raun afar frjó, þá hafði hann fundið sjálfan sig, orti mikið, byrjaði t.d. að yrkja Eden og Eiðinn, mikinn og glæsilegan kvæðabálk, sem fjallaði um frægan eið og forboðnar ástir Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Skálholti ? þar blandast saman ljóðræn ástarkvæði og þjóðfélagsádeila í anda Byrons; einnig skrifaði hann þá fyrstu sögurnar, sem birtust í Dýraverndaranum.


Þyrnar vöktu mikla athygli, er þeir birtust. Hafa sum ljóðanna síðan tilheyrt íslenzkri þjóðarsál, s.s. 'Í Hlíðarendakoti', 'Litla skáld á grænni grein' og 'Sólskríkjan'. Önnur, s.s. 'Skilmálarnir', 'Brautin' og 'Vestmenn' auk fleiri nefndra ljóða, hafa löngum höfðað til þeirra, sem gagnrýnastir eru á gamlar hefðir og yfirstéttir þessa heims. Í endurútgáfum verksins var miklu aukið við af ljóðum, bæði ljúfum og stríðum, en "vopnaburður hans verður mjúklegri og fimlegri, án þess að uppreisnarandinn verði í rauninni þróttminni," og er Eden bezta dæmið um þá auknu "vígleikni" hans (SN). "Þorsteinn er brautryðjandi, skáld nýrra tímamóta. Annars vegar er hann alinn upp við rómantíska ljóðfágun og náttúrudýrkun, hins vegar gagntaka hann nýjar hugmyndir raunsærrar stefnu erlendis. Milli rómantíkur og realisma, hins gamla og nýja í lífi hans og ljóðum, gerist allt hið markverðasta í máli hans," segir Kristinn E. Andrésson. Þrátt fyrir framfaratrú sína tók Þorsteinn "rómantíska afstöðu í fossamálinu, gegn því að nota fossana til iðnaðar" (St.Ein.), og sést það bezt af einu hinna síðari kvæða hans, 'Við fossinn'. Viðkvæm fegurðardýrkun Þorsteins kom fram í þessu sem öðru, enda ljóst, að "rómantískara efni og orðaval getur varla" en í sumum ljóða hans (KrEA). Alþekkt dæmi um ljúfleik þess ljóðmáls er upphafsvísan í þættinum Nótt í kvæðabálkinum Eiðnum:


Nú máttú hægt um heiminn líða,
svo hverju brjósti verði rótt,
og svæfa allt við barminn blíða,
þú bjarta, heiða júlínótt.
Eftir heimkomuna var Þorsteinn áfram gagnrýninn á kirkju og kennivald, en með fágaðri hætti, þó þannig, að undan sveið eins og í kvæði hans 'Jól'. Undir lokin er þó eins og hann hafi efazt um fyrri afstöðu sína og opnazt á ný fyrir tilvist annars heims (sem t.d. Verðandimaðurinn Einar H. Kvaran boðaði eindregið með spíritisma sínum á þeim árum), sbr. kvæðið 'Brot' ("Svo mart kann að móðga og hryggja ..."), ljóðabrotið 'Síðasta nótt Jóns Arasonar' (1914) og aðra af tveimur síðustu vísum hans, í september 1914:


Og nú fór sól að nálgast æginn,
og nú var gott að hvíla sig
og vakna upp úngur einhvern daginn
með eilífð glaða kríngum sig.


Þorsteinn hélt tryggð við jafnaðarstefnuna, las t.d. helzt blaða Social-Demokraten, málgagn danskra sósíalista. Hann leitaðist við að vera skáld alþýðunnar og tókst það flestum fremur, enda öðlaðist hann almenna hylli fyrir ljóðrænu sína, og þótt ádeilukvæði hans reittu suma til reiði, voru þeir fleiri, sem létu hrífast með. Telja fræðimenn hann hafa haft gríðarleg áhrif með samfélagslegum viðhorfum sínum, sem æska landsins gleypti í sig með hans kliðmjúku ljóðum. Skáldið Stephan G. Stephansson vottaði honum þakkarskuld sína, og víðar gætti áhrifa hans lengi í skáldskap sem í þjóðfélagsmálum. Þorsteinn studdi á virkan hátt verkalýðshreyfinguna og barðist af krafti fyrir sjálfstæði Íslands, sem og var í takt við áhuga hans á þjóðfræðum, Íslandssögu og fornum menningararfi. Kvæði hans 'Landvarnarmaðurinn', ort ári fyrir andlát hans, ber því vitni, að baráttuandi hans var samur og fyrr. En leyfum hugsjónarmanninum, fullum eldmóðs, að eiga hér síðasta orðið, með frægu erindi úr 'Brautinni':


Jeg trúi því, sannleiki, að sigurinn þinn
að síðustu vegina jafni;
og þjer vinn jeg, konúngur, það sem jeg vinn,
og því stíg jeg hiklaus og vonglaður inn
í frelsisins framtíðar nafni.


Útgefin rit Þorsteins voru: Þyrnar, Kh. 1897, endurútgefnir í aukinni mynd í Rvík 1905 og 1918, þá með formála dr. Sigurð Nordal og greinum um Þorstein eftir ýmsa; 4. útg. 1943, en þar er löng ritgerð um höfundinn eftir Sigurð Nordal. Ruins of the Saga Time, London 1899 (skýrsla um ferðir og rannsóknir á Íslandi sumarið 1895). Heiðrún, 1901?2 (safn af sögum og ævintýrum frá ýmsum löndum, m.a. eftir Turgenjef). Íslenzkar sögur og sagnir (ritstjóri), Rv. 1906. Meðan um semur (svar til Jóns Jenssonar, um landsmál), Rv. 1908. Eiðurinn, kvæðaflokkur, Rv. 1913 (fyrri hluti verksins, sá síðari kom aldrei út; 2. prentun 1925, 3. pr. 1937). Málleysingjar, ævintýri um dýrin (upphaflega birt í Dýraverndaranum, en hér í útgáfu Ásgeirs Ásgeirssonar og með formála eftir hann), Rv. 1928 (2. útg. 1951 með grein eftir Sigurð Nordal). Sagnir Jakobs gamla (með formála eftir Guðmund G. Hagalín), Rv. 1933. Litli dýravinurinn, kvæði og sögur, 1950. Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar, 1954 (safnað þar saman úr ýmsum áttum af Freysteini Gunnarssyni og með formála hans). Auk þess skrifaði Þorsteinn fjölda greina, m.a. í Tímarit Bókmenntafélagsins, Sunnanfara, Dýravininn, Eimreiðina o.v. og grein í bókina Ben. Gröndal áttræður, Rv. 1906. Þýðingar hans útgefnar 1913 voru Sagan af Tuma þumli, Tólf þrautir Heraklesar, Ferðir Münchhausens baróns eftir Raspe og För Gullivers eftir Swift. Heildarútgáfa verka hans, Rit I?III, kom út 1958 í umsjá Tómasar Guðmundssonar, með formálum eftir hann, ritgerð Nordals og eftirmála um höfundinn (ljóðmæli fylla fyrstu tvö bindin, en í III. bindi eru sex smásögur, 30 þjóðsagnir og sex ritgerðir, m.a. um Steingrím Thorsteinson og Grím Thomsen). Gullregn úr ljóðum Þorsteins Erlingssonar, 1963 (Björn Þorsteinsson tók saman og skrifaði um höf.), o.fl. endurútgáfur verka hans seinna.


Fyrri kona Þorsteins var dönsk. Þau skildu eftir komu þeirra til Seyðisfjarðar, barnlaus. ? Seinni k.h. (1901) var Guðrún Jónsdóttir frá Kotlaugum í Ytrahreppi (Guðrún J. Erlings), f. 10. jan. 1878, d. 1. maí 1960. Börn þeirra voru Svanhildur, kona Sæmundar kaupmanns Stefánssonar í Rvík (og er dr. Þorsteinn stjörnufræðingur sonur þeirra) og Erlingur læknir í Rvík.


Jón Valur Jensson tók saman.


Heimildir:
1. Íslenzkar æviskrár V, 201. (Þar er ennfremur vísað í þessar heimildir: Sunnanfari IV og XIII; Óðinn I; Skírnir 1915; Unga Ísland XIX, og 3. útgáfa Þyrna 1918.)
2. Hver er maðurinn? II, 325.
3. Einar H. Kvaran: 'Þorsteinn Erlingsson', í Lögréttu, 7. okt. 1914, endurbirt í bók hans Mannlýsingum, Rvík, 1959, bls. 94?108.
4. Sigurður Nordal: Formáli og inngangur að Þyrnum, 4. útg., Helgafell 1943, s. V-CIV; endurpr. í Þ.E.: Rit I, s. 11?94.
5. Kristinn E. Andrésson: 'Brautryðjandinn Þorsteinn Erlingsson', í ritgerðasafninu Eyjan hvíta, Rv. 1951, s. 48?80, endurpr. í riti hans Um íslenzkar bókmenntir. Ritgerðir, I (1976), 218?247.
6. Próf. Stefán Einarsson: Íslenzk bókmenntasaga 874?1960, Rv. 1961, s. 336?8.
7. Próf. Richard Beck: History of Icelandic Poets, 1800?1940 (Cornell University Press, Ithaca, New York, 1950), s. 89?95, with references to more sources.
8. JVJ: Bókmenntaritgerð í MR vorið 1969 um ádeilukveðskap Þ.E. á kirkju og trúarbrögð.
9. Bjarni Benediktsson frá Hofteigi: Þorsteinn Erlingsson, Rv. 1958.
10. Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson: Íslenzkt skáldatal, M?Ö, Rv. 1976, s. 88?90. Þar er m.a. skrá um greinar um verk Þorsteins og ævi.
11. Sbr. einnig http://www.gegnir.is/F ? þar er t.d. að finna skrá um fjölda laga, sem samin hafa verið við ljóð Þorsteins.
12. Fimm ljóð Þorsteins eru birt á íslenzku og í enskri þýðingu í safnriti Richards Beck: Íslenzk ljóð, frumkvæði og þýðingar ? Icelandic Lyrics, originals and translations, Rv. 1930, s. 125?135.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10973
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is