Prenta síðu á Gardur.is



Einstaklingurinn:
Nafn:
Bjarni Jónsson
Heimili:
Lækjargötu 12b
Fæðingardagur:
21-10-1881
Staða:
Vígslubiskup
Dánardagur:
19-11-1965
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
24-11-1965
Reitur:
A-28-24
Annað:

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Prestur og vígslubiskup
Bjarni Jónsson
Bjarni Jónsson var fæddur í Mýrarholti við Reykjavík 21. okt. 1881, sonur Jóns Oddssonar, tómthúsmanns þar, frá Laxárnesi í Kjós, og k.h. Ólafar Hafliðadóttur frá Nýjabæ í Reykjavík. Bjarni varð stúdent frá Lærða skólanum með I. einkunn 1902 og hélt áfram farsælum námsferli með prófum við Hafnarháskóla, síðast embættisprófi í guðfræði 1907. Sama haust varð hann skólastjóri barna- og unglingaskólans á Ísafirði, en hafði áður kennt einn vetur við Stýrimannaskólann og Kvennaskólann í Reykjavík. Hann var skipaður 2. prestur við dómkirkjuna í Reykjavík 1910 og vígður þá um sumarið. Hann var skipaður dómkirkjuprestur 9. júlí 1924, var prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1932-38 og dómprófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi 1945-51. Vígslubiskup var hann í Skálholtsbiskupsdæmi forna frá 1937 (vígður biskupsvígslu 4. júlí s.á.) til æviloka, 19. nóv. 1965. Hann fekk lausn frá prests- og prófastsstörfum 1951. Var settur biskup Íslands í nóv. og des. 1953 og jan. 1954. Sr. Bjarni var prófdómari við guðfræðideild Háskóla Íslands frá upphafi 1911 til 1963. Hann var formaður KFUM 1911-65, í stjórnarnefnd Kvennaskólans 1915-65, í skólanefnd Barnaskóla Reykjavíkur og Seltjarnarness nokkur ár, í stjórn Prestafélags Íslands 1919-39 og 1947-50, Hins ísl. Biblíufél. mörg ár, formaður Ekknasjóðs Rvíkur 1924-51, fyrsti forseti Reykvíkingafélagsins 1940, var fulltrúi kirkju Íslands á kirkjuþingi í Stokkhólmi 1925 og ferðaðist um Danmörku 1913 og 1923, flutti erindi við Khafnarháskóla, hélt fyrirlestra um kirkjustarf og menningarmál á Íslandi og guðsþjónustur í ýmsum kirkjum í boði dönsku kirkjunnar. Hann varð heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands 1941, hlaut ýmsar orður og heiðursmerki (m.a. stórkross Fálkaorðunnar og Dannebrogorðunnar) og var kjörinn heiðursborgari Reykjavíkur 1961. Þá var hann heiðursfélagi brezka Biblíufélagsins, KFUM í Rvík, Prestafélags Íslands, Prestafél. Suðurlands, Reykvíkingafélagsins og Ekknasjóðs Rvíkur. Hann var frambjóðandi í fyrstu almennu forsetakosningunum, 1952, ásamt tveimur öðrum, fekk 44,1% atkvæða, en tapaði naumlega fyrir Ásgeiri Ásgeirssyni. Ritstörf séra Bjarna voru predikanir, erindi og ritgerðir um trúar- og kirkjuleg efni í ýmsum blöðum og tímaritum íslenzkum og erlendum, ásamt nokkrum prentuðum bæklingum og þýddum ritum (sjá Guðfræðingatal 1847-2002, I, 242-3). Um hann sjálfan kom út bókin Séra Bjarni eftir ýmsa höfunda (Kvöldvökuútgáfan 1967).


Sr. Bjarni var um langt árabil einn þekktasti borgari Reykjavíkur, og sópaði að honum þar sem hann gekk hempuklæddur milli heimilis síns og kirkju. Hann var orðheppinn maður og tilsvör hans mörg hent á lofti. Hann var fastheldnari í trúarefnum en sumir aðrir kirkjumenn um hans daga, sem aðhylltust nýguðfræðina, en kristindómur hans borinn uppi af heitri trú og andagift.


Sr. Bjarni kvæntist 1913 Áslaugu Ágústsdóttur, verzlunarstjóra á Ísafirði, Benediktssonar. Börn þeirra voru Ágúst skrifstofustjóri, kvæntur Ragnheiði Eide Bjarnason, Ólöf, kona Agnars Kl. Jónssonar sendiherra, og Anna, gift Jóni Eiríkssyni verzlunarmanni; þau skildu.


Helztu heimildir:
Guðfræðingatal 1847-1976, 463-4, eftir Björn Magnússon.
Guðfræðingatal 1847-2002, I. bindi, bls. 242-3, eftir Gunnlaug Haraldsson.
Íslenzkar æviskrár VI, 60.
Hver er maðurinn? I, 66.
http://forseti.is/Forsida/Fyrriforsetar/
Bókmenntavefurinn.


Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.

 

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10974
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is