Menntafrömuður og merkisberi
heimilisiðnaðar:
Halldóra Bjarnadóttir
Halldóra Bjarnadóttir var fædd þann 14. október 1873 að Ási í Vatnsdal,
Austur-Húnavatnssýslu, dóttir hjónanna Bjarna Jónassonar, bónda þar, og Bjargar
Jónsdóttur frá Háagerði á Skagaströnd. Var Bjarni af efnabændum kominn úr
Vatnsdal, en Björg af efnalitlu fólki, og galt hún þess, hafði þó alizt upp á
menningarheimili; var uppeldisbróðir hennar og náfrændi Jón Árnason
þjóðsagnasafnari. Frá Ási fluttust foreldrar Halldóru að Flögu í sömu sveit og
síðan að Hofi í Vatnsdal, og þar kynntist hún fyrst skólahaldi, því að síðasta
ár hennar þar var kvennaskóli Húnvetninga þar til húsa; fekk hún að stunda þar
sauma við sessuborð, sem enn er til. Var hún þá níu ára að aldri, en vorið eftir
slitu foreldrar hennar samvistum; taldi Halldóra sig síðar aldrei hafa beðið
þess bætur; faðir hennar fluttist til Vesturheims, en hún með móður sinni til
Reykjavíkur. Héldu þær næstu ár til hjá Jóni Árnasyni og Katrínu konu hans. Var
Halldóra meðal fyrstu stúlkna sem gengu í Barnaskóla Reykjavíkur. Hún starfaði
sem farkennari í Skagafirði frá 17 ára aldri, en síðast í Höfnum á Skaga, þar
til hún var til 22ja ára. Auk bókgreina kenndi hún fatasaum o.fl., og ekki
einungis börn, heldur vinnufólk á bænum og nágrannabæjum sótti tilsögn til
hennar. Jónína húsfreyja í Höfnum sá hvað í henni bjó og bauðst til að styrkja
hana til utanferðar, því að enginn kennaraskóli var þá í landinu. Eftir þessu
sóttist Halldóra, og mun faðir hennar einnig hafa stutt hana til náms. Hélt hún
í því skyni til Noregs 1896 og lauk kennaraprófi í Osló vorið 1899 með
lofsamlegum vitnisburði. Var hún kennari við Barnaskólann í Reykjavík 1899?1900,
auk þess að kenna kristinfræði og landafræði í Kvennaskólanum, en hvarf af landi
brott vegna synjunar um kauphækkun í samræmi við aðra menntaða starfsbræður;
reiddust margir í bænum þeirri ákvörðun barnaskólans, m.a. Bríet
Bjarnhéðinsdóttir sem í Kvennablaðinu átaldi þá sem hafnað hefðu jafngóðum og
vel menntuðum kennara sem Halldóru. Hún gerðist síðan kennari við barnaskóla í
Kongsvinger, Noregi, 1900?1, og annan í Moss 1901?8. Dvaldist móðir hennar hjá
henni öll Noregsárin og þaðan í frá, meðan henni entist aldur.
Almenn skólaskylda á Íslandi fyrir börn frá 10?14 ára komst á með fræðslulögunum
1907. Halldóra þráði að komast heim og greip tækifærið, þegar auglýst var
skólastjórastaða á Akureyri. Var hún skólastjóri barnaskólans þar 1908?18, vann
þar mikið og gott starf, lagði áherzlu á almennari menntun en þá hafði tíðkazt,
þ.m.t. handavinnukennslu og siðlegt uppeldi. Leikir og söngur voru fléttuð inn í
kennsluna, auk tengsla við samfélagið, vettvangsferða í náttúrufræði, sérkennslu
o.fl. Hún fekk skáld í héraði, sr. Jónas á Hrafnagili og Pál J. Árdal, til að
yrkja og þýða ljóð við falleg lög til söngs, og var svo farið í hringdansa til
skemmtunar; upp úr því varð til bók hennar Kvæði og leikir, sem var kærkomin
börnunum. Leikvöll lét hún gera við skólann, en þar var áður hættulegt umhverfi
við snarbratta brekku. Lét hún ennfremur koma þar á fót vísi að skólabókasafni
og ekki sízt prjóna- og saumstofu, starfaði þar af kappi með sjálfboðaliðum
eftir skólatíma, hafði áður safnað notuðum fötum hjá efnafólki, látið spretta
þeim upp, þvo, strauja, sníða upp og sauma nýjar flíkur og létti neyð fátækra
heimila með því að gefa klæðlitlum börnum prjónaflíkur og önnur föt; kom það sér
afar vel frostaveturinn 1918. Einnig efldi hún metnað kennara með ýmsum nýjungum
og varð fyrst til þess hér á landi að halda kennara- og foreldrafundi. Auk
skólastjórnarinnar kenndi hún kristinfræði og handavinnu í efstu bekkjum. Þótti
hún frábær kennari í kristnum fræðum, enda mikil trúkona og hélt vel utan um
börnin, einkum þau sem áttu í erfiðleikum. Litlu-jól lét hún halda þar, hvert
barn fekk kerti til að kveikja á, gengið kringum jólatré, lesið jólaguðspjallið
og sungnir jólasálmar; urðu þessi litlu-jól börnunum eftirminnileg alla ævi. Þá
hélt hún handavinnunámskeið nyrðra um tólf ára skeið og taldist sjálfri svo til,
að um 500 konur og stúlkur hefðu sótt námskeiðin, meðan þau voru starfrækt.
Skólastjórn hennar við barnaskólann var þó oft til umræðu og athugasemda, og
þegar henni fannst hún ekki njóta fulls stuðnings skólanefndarinnar vegna
tímabundinnar lokunar skólans frostaveturinn 1918 (einn nefndarmaður sat hjá við
stuðningsyfirlýsingu við hana), var henni í stolti sínu nóg boðið, sagði starfi
sínu lausu þá um vorið og lét ekki fundahöld, undirskriftir og áskoranir mætra
manna, m.a. séra Matthíasar Jochumssonar, telja sér hughvarf. Hún hélt samt
áfram til á Akureyri til haustsins 1922, með námskeið í saumum og vefnaði. Var í
fyrsta sæti á kvennalista til bæjarstjórnarkosninga 1910 og 1921 og reyndar í 3.
sæti á kvennalistum til Alþingiskosninga 1922 og 1926. Sat hún í bæjarstjórn á
Akureyri og í skólanefnd. Mikilvægt var einnig starf hennar fyrir norðlenzk
kvenfélög. 17. júní 1914 efndi hún til kvennafundar á Akureyri, og fjölmenntu
konur af Norðurlandi og stofnuðu þá Samband norðlenzkra kvenna, samtök
héraðssamtaka allt frá Þingeyjarsýslum til Strandasýslu. Var Halldóra kjörin
fyrsti formaður sambandsins og var formaður í áratug. En 1913 var hún einn af
stofnendum Heimilisiðnaðarfélags Íslands.
Halldóra flyzt svo aftur til Reykjavíkur, var stundakennari í handavinnu í
Kennaraskólanum 1922?30 og mun hafa kennt um 2?300 kennaraefnum þá grein. Var
hún upp frá því ráðunautur almennings í heimilisiðnaði með styrk frá Alþingi og
á vegum Búnaðarfélags Íslands, 1922?57, og ferðaðist um allar sýslur landsins í
því skyni. Beitti hún sér mjög fyrir námskeiðahaldi, heimilisiðnaðarsýningum og
samkeppnum á vegum kvenfélaganna og Búnaðarfélagsins. Hélt hún sýningar á
íslenzkum heimilisiðnaði hér á landi, á Norðurlöndum og í Vesturheimi. Hafði hún
ársdvöl í Ameríku í boði Þjóðræknisfélagsins 1937?8. Fór einnig til Englands og
Norðurlanda með styrk frá Alþingi til að kanna og ná litmyndum af íslenzkum
vefnaði í fyrirhugaða bók um 'Vefnaðinn á ísl. heimilum á öldinni sem leið og á
fyrsta þriðjungi 20. aldar'. Hún fór margar ferðir til Norðurlanda, bæði með
heimilisiðnaðarsýningar og á heimilisiðnaðarþing. Hún stofnaði ársritið Hlín og
var ritstjóri þess og eigandi frá 1917, um 44 ára skeið, og var jafnan óhrædd
við að láta skoðanir sínar í ljós. Hlín varð mjög vinsæl, gefin út í u.þ.b. 6000
eintökum. Árið 1940 fluttist hún aftur norður og keypti lítið býli, Móland í
Glerárþorpi. Hún stofnaði tóvinnuskólann á Svalbarði við Eyjafjörð 1946, en hann
var starfræktur til 1955. Var hún þar ekki sjálf skólastjóri, heldur heimsótti
skólann hálfsmánaðarlega, kenndi kristinfræði og flutti erindi, auk þess að
leggja honum til fjárhag, húsgögn, áhöld og efni. Hér má bæta því við, að í
grein í Hlín 1958 gagnrýndi hún ákvörðun Kvennaskólans að leggja minni áherzlu á
kristinfræðikennslu og taldi, að kennsla í þeirri grein í grunnskólum væri
léleg. Hvatti hún til þess, með hliðsjón af góðri reynslu sinni í Noregi, að
kristinfræði yrði kennd eina stund á viku, með lestri Nýja testamentisins,
Passíusálma og sálma ? þar væri að finna bæði fagurt mál og mikla andlega fæðu.
Halldóra var kona sjálfstæð, ötul og stjórnsöm, og fyrst íslenzkra kvenna
stjórnaði hún stórum barnaskóla hér á landi. "Hún blandaði sér líka mikið í
kvennabaráttuna og var ósátt við það að konur fengju ekki sömu laun og karlar
fyrir sömu störf" (EJ & SH). Um hana segir ennfremur í grein eftir Áslaugu
Sverrisdóttur: "Hún virðist allt sitt líf hafa verið gagntekin af þeirri hugmynd
að hún væri kölluð til að vinna að framförum á Íslandi. Helstu viðburðir á
langri og atorkusamri starfsævi Halldóru eru kunnir flestum þeim sem áhugasamir
eru um sögu kennslu og menntunar, sögu kvenna og sögu handverks. Hennar er nú
einkum minnst sem helsta málsvara gamla íslenska heimilisiðnaðarins, íslenskrar
ullar og tóskapar. Nægir þar að minna á Halldórustofu í Heimilisiðnaðarsafninu á
Blönduósi, hlut Halldóru í söfnun muna úr íslenskri ull og skrif hennar um
heimilisiðnað." Hafði hún "þegar sem ung kona mótað með sér ákveðnar hugmyndir
um gildi sýninga til að kynna íslenska framleiðslu, hún var snemma búin að
glöggva sig á vægi og hlutverki sýninga til að kynna og efla framfarir í iðnaði
og tækni." Átti hún með þrotlausu kynningar- og undirbúningsstarfi mestan heiður
af hinni glæsilegu Landssýningu á heimilisiðnaði, sem opnuð var í Menntaskólanum
í Reykjavík 20. júní 1930, tíu dögum fyrir Alþingishátíðina. Voru sýningarmunir
um 2500, u.þ.b. tólf úr hverjum hreppi á landinu og 250 munir frá Reykjavík.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson blaðamaður var á sýningunni og lýsti Halldóru svo, að
hún hafi verið ?há og tíguleg, klædd íslenzkum skautbúningi, fögur í sinni
reisn. ... Mér fannst þá, að ef nokkur kona gæti í lifanda lífi verið tákn
hugmyndarinnar um Fjallkonuna, þá væri það Halldóra Bjarnadóttir.? Vilhjálmur
ritaði síðar ævisögu hennar. Halldóra varð riddari Fálkaorðunnar 1931,
heiðursfélagi Búnaðarfélags Íslands og Þjóðræknisfélags Vestur-Íslendinga,
ennfremur heiðursfélagi í fjölmörgum kvenfélögum, hafði reyndar stofnað þau
mörg. Hún seldi býli sitt Móland 1954 og fluttist til Blönduóss, á elliheimili
Héraðshælisins. Þegar hún lagðist á hjúkrunardeild sömu stofnunar, ánafnaði hún
Heimilisiðnaðarsafninu eigur sínar, og eru þær varðveittar í Halldórustofu. Áður
hafði hún gefið Búnaðarfélagi Íslands gott safn muna og búninga. Sívinnandi var
hún þó eftir komuna til Blönduóss og skrifaðist á við um 400 konur og karla.
Rit Halldóru, auk ótal greina í Hlín, voru þessi: Kvæði og leikir, barnabók,
1917 (3. útg. 1951). Barnabók Hlínar, 1951. Vefnaður á íslenzkum heimilum á 19.
öld og fyrri hluta 20. aldar. Rvík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs og
Þjóðvinafélagsins, 1966; þá bók tileinkaði hún foreldrum sínum með þakklæti og
virðingu. Hún gaf ennfremur út Vefnaðarbók Sigrúnar Blöndal, 1932?35 (2. útg.
1948), og nokkrar ísl. uppdráttarmöppur fyrir útsaum og vefnað. ? Halldóra var
ógift, og voru það djúpstæð áhrif af skilnaði foreldra hennar; eignaðist hún
ekki afkomendur. Líf hennar var að mestu helgað kennslu, frá því um 1890?1970,
en einungis um fjórðungur þess tíma fór fram innan hefðbundins skólakerfis.
Halldóra náði því að verða elzt allra Íslendinga um sína daga, 108 ára, var þó
enn spræk á fæti fram á tíræðisaldur og hélt andlegum kröftum fram yfir tírætt.
Þessi elskaða og virta hugsjóna- og þjóðþrifakona lézt þann 27. nóv. 1981 á
Héraðshælinu á Blönduósi og var til grafar borin 5. desember á Akureyri.
Jón Valur Jensson tók saman.
Heimildir:
1. Kennaratal, I, 252, IV, 18. Hér er þó eftirnafn föður hennar rangt (sagður
Jónsson, en var Jónasson).
2. Íslenzkir samtíðarmenn, I, 280.
3. Hver er maðurinn? I, 267.
4. Vefsíða Heimilisiðnaðarsafnsins: Halldóra Bjarnadóttir ? Halldórustofa:
http://www.simnet.is/textile/
5. Áslaug Sverrisdóttir: Halldóra Bjarnadóttir og heimilisiðnaðarsýningin árið
1930, grein í Riti Heimilisiðnaðarfélags Íslands 2002, aðgengileg á netinu á
vefsíðunni
http://www.heimilisidnadur.is/huguroghond/2002/halldora_b.htm (þar er
og ýtarleg heimildaskrá).
6. Guðrún Helgadóttir, kennslufræðingur við Myndlista- og handíðaskóla Íslands:
Um störf Halldóru Bjarnadóttur að skólamálum. Fyrirlestur fluttur við
kennaradeild Háskólans á Akureyri 13.3. 1996, aðgengilegur á vefslóðinni
http://holar.is/~gudr/kennslufr/HBAK.doc (afar læsilegt efni og
notadrjúg heimild; þar er og ýtarleg heimildaskrá).
7. Edda Jóhannesdóttir og Sólbjörg Harðardóttir: Halldóra Bjarnadóttir
(1873?1981), háskólaritgerð á vefsíðunni
http://www.hi.is/~jtj/vefsidurnemenda/Konur/halldorabjarnad.htm (þar
er og ýtarleg heimildaskrá).
8. Hulda Á. Stefánsdóttir: Halldóra Bjarnadóttir, í Æviminningabók Menningar- og
minningasjóðs kvenna, V (1984), bls. 75?77. Afar gott og læsilegt yfirlit
skrifað af þeirri merku skólakonu.
En ýtarlegustu heimildir um Halldóru munu vera þessar:
9. Vilhjálmur S. Vilhjálmsson: Halldóra Bjarnadóttir, ævisaga, Rvík 1960.
(Halldóra skrifaði sjálf formála og síðasta kafla þeirrar bókar.)
10. Áslaug Sverrisdóttir: Þjóðlyndi, framfarahugur og handverk. Barátta Halldóru
Bjarnadóttur fyrir endurreisn íslensks heimilisiðnaðar 1886-1966. Óbirt
MA-ritgerð í sagnfræði við H.Í., 2001.
11. Jenný Karlsdóttir og Þórdís Ingvadóttir: Halldóra Bjarnadóttir og störf
hennar að skólamálum. Óbirt B.Ed.-ritgerð við Kennaraháskóla Íslands 1982.
|