Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör


    

    

     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Sigríður Pétursdóttir
Heimili:
Hlíðarvegur 45
Fæðingardagur:
30-04-1915
Staða:
Dánardagur:
18-11-1991
Kirkjugarður:
Siglufjarðarkirkjugarður
Jarðsetningardagur:
Reitur:
A-13
Annað:
Senda athugasemd.

Ítarefni.Þessar greinar eru teknar saman af aðstandendum.

Útfarardagur: 23. nóvember 1991

Sigríður Pétursdóttir fædd 30. apríl 1915 á Flugumýri í Skagafirði. Foreldrar Fanney Þorsteinsdóttir, fædd 21. september 1885, dáin 4. júlí 1981 og Pétur Lilji Magnússon fæddur 11. febrúar 1883, dáinn 1920.
Kvæntist Þorsteini Sveinssyni 1941 og eignuðust þau 3 börn. Jóhönnu Steinunni Þorsteinsdóttur fædd 1941, dáin 2010. Svein Þorsteinsson fæddur 1945. Fanney Þorsteinsdóttur fædd 1953.
Flutti ung kona til Siglufjarðar og bjó þar og starfaði alla tíð.

 

Minningargreinar:

Í dag laugardaginn 23. Nóvember verður til moldar borin frá Siglufjarðarkirkju tengdamóðir mín hún Sigga eða Didda eins og hún var alltaf kölluð á Siglufirði.

Hún var fædd í Skagafirði og ólst þar upp. Allan sinn búskap bjó hún á Siglurfirði, en þar giftist hún 1941 Þorsteini Sveinssyni sem lést árið 1965, þau eignuðust 3 börn Jóhönnu, Svein og Fanney. Jóhann er ógift. Sveinn er kvæntur Bertu Jóhannsdóttur og eiga þau 5 börn, og Fanney er gift undirrituðum og eigum við 2 börn. Og langömmubörnin eru nú orðin 4. Hún var stolt af hópnum sínum þó ekki væri hann stór. Ég kynntist Siggu árið 1973 þegar ég kom til hennar í fyrsta sinn á Siglufjörð, þá tók hún brosandi á móti mér og var hennar viðmót ætíð þannig, því alltaf gat hún gefið hlýju, hvernig sem á stóð. Og sóttu hana allir vel heim. Með þessum orðum ætlaði ég ekki að rekja ævisögu hennar, heldur að rita nokkur kveðjuorð.

Og nú þegar sorgin ber að dyrum hjá okkur öllum og okkur líður illa getum við huggað okkur við það að henni líði vel, og sorgin verður að teljast náðargjöf, því einn sá getur syrgt, sem elskað hefur, og sá einn hefur mikið misst sem mikið hefur átt eins og við. Ef tilveran heldur áfram eftir dauðann eins og við viljum trúa veit ég að að sambandið við hana, helst með þráðlausum skeytum hugans, og mynd hennar lifir í hjörtum okkar. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þessari kostakonu og bið ég góðan guð að geyma hana og blessa minningu hennar.

Hilmar G. Sverrisson

 

Einn ástvinur okkar er fallin frá,
farinn himininn á,
en minningin lifir um ókomna tíð,
hana við geymum hjörtunum í.

Sigga Rut, 13 ára.

 

Nú hefur hún kvatt þennan heim, hún amma mín, eftir mikil og slæm veikindi síðastliðna viku. Ég minnist ömmu minnar alltaf sem góðrar og hressrar konu, því að alltaf var það hún sem gaf öllum mest, þótt hún ætti minnst. Aldrei hlífði hún sér við eða kveinkaði sér yfir smámunum sem voru kannski ekki alltaf smámunir, þó þeir væru það í hennar augum. Hún var dugleg og hún var sterk. Og alltaf reyndist hún mér vel, hvernig sem á stóð. Nú þegar hún hefur yfirgefið þennan heim vona ég að hún hafi fæðst inn í annan betri, hlýrri og yndislegri og haldi áfram á sömu braut.

Sverrir Rúnar Hilmarsson

 

Í dag er til moldar borin frá Siglufjarðarkirkju frú Sigríður Pétursdóttir, gömul og kær fjölskylduvinkona. Sigríður var fædd 30. apríl 1915 og var því á 76. aldursári þegar lífi hennar lauk.

Sigríður var gift Þorsteini Sveinssyni sem lést af slysförum fyrir 26 árum. Þau áttu þrjú börn; Jóhönnu , ógifta og barnlausa; Svein, kvæntan Bertu Jóhannsdóttur, og Fanneyju, gifta Hilmar Sverrissyni. Eiga þau Fanney og Sveinn bæði mannvænleg börn sem nú sakna ömmu sárt.

Þegar Sigríðar er minnst þá kemur fyrst upp í hugann hin óviðjafnanlega gestrisni sem hún á svo óeigingjarnan hátt sýndi þeim sem hún tók tryggð við. Engu að síður var Sigríði gefinn sá eiginleiki jafnhliða mildi sinni og hlýju að vera ákveðin og föst fyrir og skörungur hinn mesti ef á þurfti að halda.

Fyrstu kynni fjölskyldunnar hófust þegar bróðir Sigríðar kvæntist inn í okkar fjölskyldu. Um það leyti var faðir minn, Einar, á leið til Siglufjarðar í síld eins og svo margir aðrir sem sóttu vinnu á þessum gullaldarárum. Var því komið í kring að ungi maðurinn fékk húsaskjól hjá þeim Sigríði og Þorsteini og var þar í fæði, húsnæði og góðu yfirlæti á meðan hann dvaldi þar við störf.

Árin liðu og Einar stofnaði sína fjölskyldu, og eftir basl við börn og bú var ákveðið að fara í sumarfrí og stefnan auðvitað tekin á Siglufjörð. Þetta var fyrir um það vil þrjátíu árum og var þá endurnýjuð sú vinátta sem stofnað var til á síldarárunum. Sú vinátta hefur allar götur síðan blómstrað og eflst og munum við yngra fólkið ekki slíta þau bönd vináttu sem foreldrar okkar hnýttu fyrir svo mörgum árum. Á ég þá sérstaklega við dóttur Sigríðar, Fanneyju, sem er okkur sérlega kær.

Sigríður var kona verka og gjörða svo ég ætla ekki að fjölyrða frekar um kosti hennar í fullvissu þess, að þeir sem han þekktu viti hvað við er átt. Síðastliðið sumar heimsóttu Einar og Vilborg, foreldrar mínir, Sigríði og fjölskyldu hennar sem var þá samankomin til að halda hátíð í anda gömlu síldaráranna. Þótt heilsu Sigríðar fari hrakandi á þessum tíma þá sameinaðist fjölskyldan um að gera þessa hátíð veglega og rausnarlega eins og frekast var unnt. Áttu þau saman gleðilegar stundir við upprifjun gömlu daganna og nutu þessara stunda vel.

Segja má að þetta hafi verið kveðjustund þessara gömlu vina og sannarlega í anda Sigríðar. Hafi Sigríður og hennar fjölskylda öll bestu þakkir fyrir móttökurnar. Kæru fjölskyldur, þið sem nú saknið og eigið um sárt að binda við fráfall kærrar móður og ömmu, munið að algóður guð líknar þeim sem sjúkir eru og huggar þá sem sorgum eru hlaðnir. Við vottum  ykkur öllum okkar dýpstu samúð,
Gerða, Valdimar,
Einar og Lilla.

   


Söguágrip:
Siglufjarðarkirkjugarður er í Siglufjarðarprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Kirkja hefur verið í Siglufirði síðan 1614 en var áður á Siglunesi. Núverandi kirkja var vígð 1932. Árið 1974 voru settir steindir gluggar í kirkjuna, teiknaðir af Maríu Katzgrau. Siglufjarðarkirkja á marga góða gripi, meðal annars altaristöflun frá 1726 er sýnir síðustu kvöldmáltíðina, aðra frá 1903 eftir Anker Lund er sýnir Krist í grasgarðinum, og hina þriðju eftir Gunnlaug Blöndal er sýnir Krist birtast sjómönnum í hafsnauð. Skírnarfontur er eftir Ríkharð Jónsson.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Engar myndir frá garði! Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Skúli Jónsson
Fjöldi þekktra legstaða:
305
Símanúmer:
Prófastsdæmi:
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: