Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Ólína Jónasdóttir
Heimili:
Fæðingardagur:
08-04-1885
Staða:
Skáldkona
Dánardagur:
29-08-1956
Kirkjugarður:
Miklabæjarkirkjugarður
Jarðsetningardagur:
Reitur:
óskráð leiðisnúmer
Annað:
Senda athugasemd.

Ítarefni. Neðangreind ævidrög eru kostuð af KGRP.

Ólína Jónasdóttir
skáldkona

Ólína Jónasdóttir var fædd að Silfrastöðum í Skagafirði 8. apríl 1885, dóttir hjónanna Þóreyjar Magnúsdóttur og Jónasar Hallgrímssonar, sem þá voru vinnuhjú þar. Frá hálfs mánaðar aldri til fermingar ólst hún fyrst upp hjá afa sínum og skáldmæltri ömmu, Guðrúnu Hallsdóttur, á Bólu í Blönduhlíð og Minni-Ökrum, en síðan hjá öðrum á Kúskerpi. Erfiðri veru sinni þar og heimilisháttum lýsti hún í bók sinni Ég vitja þín æska, sem út kom 1946. Frá fermingu til giftingar var hún hjá foreldrum sínum, sem þá bjuggu á Fremri-Kotum í Norðurárdal, en var þó 16-18 ára í vist hjá foreldrum Jóhanns skálds Sigurjónssonar á Laxamýri í Þingeyjarsýslu, og var það eina "útferð" hennar um dagana. Í árslok 1907 giftist hún frænda sínum Halli Jónssyni, og bjuggu þau á Brekkukoti ytra í Blönduhlíð, unz hann drukknaði sumarið 1909 á leið úr kaupstað í vesturósi Héraðsvatna. Var Ólína eftir það með son þeirra Jón í húsmennsku á ýmsum stöðum, m.a. í Kúskerpi og Axlarhaga. Rúmlega fertug veiktist hún af berklum og dvaldist lengstum eftir það á Sauðárkróki undir læknishendi, ýmist á sjúkrahúsi eða í herbergi sínu við Suðurgötu. Sambýlismaður hennar þar var Guðmundur Guðmundsson. En hugur hennar var þó jafnan bundnari átthögunum en sjávarbyggðinni:

Hér mig þreytir hafsins óður,
hann þó breyti klið.
Alltaf leitar andinn hljóður
eftir sveitarfrið.

Ung hafði hún byrjað að yrkja. Elztu vísuna, sem varðveitzt hefur, orti hún á níunda ári á leið í heimsókn til foreldra sinna og ömmu:

Fram að Kotum feta ég
að finna moturs eyju [þ.e. konu].
Ætla að nota nýjan veg,
nú í snotri treyju.

Þrátt fyrir að fóstra hennar á Kúskepri væri trúuð kona og góðviljuð, var sú stranga alvara, sem Ólína ólst þar upp við, erfið þessari fróðleiksþyrstu barnssál, sem þráði að komast í bækur og fá að yrkja eins og fleiri af ætt hennar. Vísur sínar varð hún að fela, og þær fóru brátt að lýsa megnustu svartsýni. En á Laxamýri sýndi það gáfaða fólk henni skilning og vináttu, og andlegur sjóndeildarhringur hennar víkkaði til muna. Enda þótt hún fengi menntaþrá sinni aldrei fullnægt og þrátt fyrir margt andstreymi í lífinu, ástvinamissi og heilsuleysi, óx hún samt við hverja raun, fann sína hugarró, "glöð og reif", var sískrifandi alla ævi og lét léttar bögur fjúka, sem margar voru tær snilld og flugu víða um land. Síðasta hringhenda hennar var þessi:

Hugans þræði hljóð ég rek,
hér er næði og friður,
meðan úr æðum allt mitt þrek
er að blæða niður.

Ólína jók við endurminningar sínar, og voru þær gefnar út á ný aldarfjórðungi eftir lát hennar, undir titlinum Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna. Kvæði hennar og stökur eru að mestu óútgefin, en hluti þeirra varðveittur í eiginhandarriti í handritadeild Landsbókasafns. Árið 1997 birtust fjögur ljóð hennar og fjórar stökur í safnritinu Stúlka, og er þar sumt í harmrænum anda og saknaðar, en sveitalífsmyndirnar skírar og fagrar í ljóðum eins og 'Bak við yzta núp' og 'Minning', þar sem ástin, sem enn býr í sefa hennar, birtist í sárum trega; síðarnefnda ljóðið minnir á ljúfar stemmningar í ljóðum Roberts Burns frá skozku hálöndunum. En einnig á hún til sitt æðruleysi og reisn í tjáningu sinni og einveru:

Margt í huga býr og brýzt,
birta mun ég þar af fæst,
af því ég tala allra sízt
um það sem er hjarta næst.

Þessari hringhendu gaf hún heitið 'Vísan mín', og segir það sína sögu:

Blómum dauðinn gaf ei grið,
grundir auðar standa.
Fölnað hauður vel á við
vonarsnauðan anda.

Þessi listakona orðs og máls lézt á sjúkrahúsi Sauðárkróks 29. ágúst 1956. Útför hennar fór fram frá Miklabæ í Blönduhlíð. Sjálf hafði hún áður kveðið:

Hæstur Drottinn himnum á,
heyr þá bæn og virtu:
lofaðu mér að leggja frá
landi í sólarbirtu.

Heimildir:
Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, II (1960), 61-65, eftir Sv.Þ.
Kafli er tileinkaður Ólínu í safnritinu Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, ritsj. Helga Kress (útg. Bókmenntafræðistofnun, 1997), bls. 212 (æviágrip) og 213-216 (kveðskapur).
Ég vitja þín æska, 1946 (endurminningar, ásamt nokkrum stökum, útg. Broddi Jóhannesson), 2. útg. 1947.
Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna, 1981 (endurminningar, með viðaukum, en án vísnaúrvals).
Ljóðabálkur hennar 'Krókárgerði' er í Bragfræði eftir Jón Ingvar Jónsson
(http://www.heimskringla.net/bragur/bragur/Krokargerdi.asp).
Vefslóðin http://www.kistan.is/efni.asp?n=1763&f=3&u=5.



J.V.J. tók saman.

   


Söguágrip:
Miklubæjarkirkjugarður er í Miklabæjarprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Núverandi kirkja á Miklabæ var vígð 3. júní 1973 eftir að fyrri kirkja hafði eyðilagst í bruna. Kirkjuna teiknaði Jörundur Pálsson arkitekt. Altari og skírnarsár eru höggvin úr íslenskum grástein. Í kirkjugarðinum á Miklabæ er leiði Hjálmars Skálds Jónssonar frá Bólu.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Engar myndir frá garði! Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Sr. Dalla Þórðardóttir
Fjöldi þekktra legstaða:
101
Símanúmer:
Prófastsdæmi:
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða: