Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Sigríður Einarsdóttir
Heimili:
Háaleitisbraut 46
Fæðingardagur:
14-10-1893
Staða:
Dánardagur:
10-07-1973
Kirkjugarður:
Fossvogskirkjugarður - duftgarður
Jarðsetningardagur:
18-07-1973
Reitur:
A-3-93
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Merk og sjálfstæð skáldkona:
Sigríður Einars frá Munaðarnesi

Margrét Sigríður Einarsdóttir var fædd þann 14. október 1893 í Hlöðutúni í Stafholtstungum í Mýrasýslu, dóttir hjónanna Einars Hjálmssonar (1862?1921), bónda þar 1892?4 og í Munaðarnesi í sömu sveit (hinum megin Norðurár) 1894?dd., og Málfríðar Kristjönu Björnsdóttur (1864?1899) ljósmóður frá Svarfhóli í Norðurárdal. Var Einar merkur dugnaðarmaður, víðlesinn og átti gott bókasafn, glaðvær maður og gestrisinn. Vildi hann öllum hjálpa, er aðstoðar þurftu, og var einn af stofnendum Kaupfélags Borgfirðinga. Áttu þau hjónin sex börn, Magnús, sem var bóndi í Munaðarnesi í hálfa öld, þá Sigríði, tvíburana Björn og Hjálm og að lokum aðra tvíbura, Jón, sem dó samdægurs, og Málfríði, sem varð mjög athyglisverður rithöfundur (nefndi sig þá framan af Fríðu Einars, síðar fullu nafni), en móðirin lézt af völdum fæðingarinnar. Sigríður ólst upp í Munaðarnesi til sex ára aldurs, unz hún missti móður sína, og fór þá til móðurbróður síns Jóhanns í Bakkakoti (sem síðar var nefnt Hvítárbakki) og var hjá honum næstu árin. Á þeim tíma barst þangað skarlatssótt, og var Sigríður hætt komin; hafði það langvarandi áhrif á heilsu hennar, sem og á hennar góða minni; lystarleysi ásótti hana, en læknir í Stafholti ráðlagði Þuríði ömmu hennar að næra hana á rjóma, og við það braggaðist hún og fór að stækka. Um níu ára gömul fór hún til afa síns og ömmu á Svarfhóli. Má ætla, að sú stórmerka kona, Þuríður Jónsdóttir á Svarfhóli, hafi orðið mikill áhrifavaldur til góðs fyrir sína gáfuðu sonardóttur. Hún fekk barnafræðslu, hafði góðan kennara, sóttist vel námið og varð snemma listaskrifari, lærði það af konu sem talin var skrifa frábærlega vel, en var farin að slá henni við eftir hálfan mánuð. Á unglingsárum þráði hún að fá framhaldsmenntun og hafði gert ráðstafanir til að komast í Kvennaskólann, en þá kom þar nágranni, Júlíus Halldórsson, sem vantaði fóður fyrir hest, og í kaupin tók hann að sér hýsa Sigríði og halda henni til náms. Ekki fekk hún þó kennslu hjá honum, var látin sofa fyrir ofan vinnukonuna, en sett í einkatíma hjá dætrum Halldórs Daníelssonar, Leópoldínu og Sophie. Sló hún þá slöku við námið og hugsaði mest um skáldskap, þá þegar farin að yrkja. Ráðskona var hún hjá föður sínum í Munaðarnesi frá 16 ára aldri til tvítugs. Mannahylli hafði hún, "var fundvís á gott og mikilhæft fólk, sem þá um leið laðaðist að henni sjálfri" (SG). Hún fekk starf hjá móðurbróður sínum, Guðmundi sýslumanni á Patreksfirði, 1913 (þar sem hún stofnaði kvenfélag) og varð svo sýsluskrifari í Barðastrandarsýslu 1915?18 og í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu 1918?19 (í Borgarnesi). Þaðan fór hún til Reykjavíkur og vann á Póstmálaskrifstofunni, sem þótti góð staða, en hafðist sjálf við í þröngu húsnæði.


Árið 1921 dó faðir hennar, og henni leystist svolítill arfur, sem hún notaði til Þýzkalandsferðar og hugðist stunda þar ritstörf. Hún var við nám í tungumálum og bókmenntum í Dresden 1922?23. Hjá ungverskum hefðarmanni, Arpad Szakasits, lærði hún þýzku, en hann varð síðar forseti Ungverjalands. Sigríður fór þaðan í Borgarnes og vann við skrifstofustörf hjá sláturfélaginu, orti sín ljóð og skrifaði dagbækur, en vildi ekki koðna niður í smáplássi og fór þaðan aftur til Dresden. Í för með henni var ástvinur hennar, sem ætlaði að leggja þar stund á tónlist, en upp úr sambandi þeirra slitnaði. Hún fekk vinnu við sauma í Meissen og fór þaðan síðsumars 1925 til Kaupmannahafnar, komst þar í vinnu við kjólasaum í Magasin du Nord, en missti starfið, enda ófaglærð. Þá komst hún að í fínasta tízkuhúsinu í Kaupmannahöfn, Lauritz, vegna góðra meðmæla frá Meissen. Gat hún lifað góðu lífi af kaupinu, en vinnutíminn var langur.


"Nú skyldi ætla að þessi ár erlendis hafi verið einmanaleg útlendri stúlku með ekki mikil fjárráð. En það var síður en svo. Sigríði Einars tókst það sem fáum ríkiskonum lánast svo vel sé. Hún myndaði um sig hirð, salón. Jafnvel í fjarlægum löndum var mannahylli hennar óbrigðul. Hún kynntist listamönnum af ýmsu þjóðerni, andans mönnum, sem heimsóttu hana og hafa laðazt að fjölhæfum gáfum hennar og ástúðlegu viðmóti. Þannig varð Sigríður Einars heimsborgari og þess bar hún líka vottinn. Áhugamál hennar beindust í margar áttir. Hún tók þátt í dagsins brennandi spursmálum ..." (SG). Árið 1926 fer hún aftur í Borgarnes og er þar við vinnu í sparisjóðnum, unz henni var sagt upp af stjórnmálaástæðum, en hún var róttækur verkalýðssinni og útbreiddi blöð sem vinnuveitendur hennar vildu brenna. Flyzt hún þá til Reykjavíkur 1932, þar sem hún setti upp saumastofu ásamt Halldóru B. Björnsson skáldkonu, sem hún kynntist í Borgarnesi, og þriðju konu og vann við fleiri störf. Bjó hún þar þröngt, en átti góðan vinahóp, m.a. úr hópi skálda. Einn þeirra var Karl Ísfeld blaðamaður. Eignuðust þau saman einn son, fæddan þremur vikum fyrir tímann, 15. okt. 1935, og var látinn heita Einar Ísaldur. Hafði hún ofan af fyrir þeim með saumaskap, ráðskonustarfi á matstofu Náttúrulækningafélagsins í Næpunni o.fl., en síðustu 15 árin var hún gæzlukona í Þjóðminjasafni Íslands, frá 1958 til æviloka. Hún lézt á 80. aldursári í Reykjavík 10. júlí 1973.


Sigríður var félagslynd og lagði drjúgan, óeigingjarnan skerf til félagsmála. Stofnaði hún kvenfélag á Patreksfirði, Sif, og varð síðar heiðursfélagi þess. Starfaði einnig í Ungmennafélagi Stafholtstungna og Menningar- og friðarsamtökum íslenzkra kvenna og var heiðursfélagi í þeim báðum, sem og í Póstmannafélaginu. Hún starfaði í verkalýðsflokknum í Borgarnesi og var langan tíma virkur félagi í Kvenréttindafélaginu, bæði í ritnefnd tímaritsins 19. júní, þar sem útgáfa ritsins mæddi mest á henni, og á skrifstofu félagsins mörg ár, ævinlega án endurgjalds. Ennfremur vann hún mikil og góð störf fyrir Mæðrafélagið, var þar ritari í 14 ár.


Ung fór hún að yrkja, en birti sín fyrstu ljóð undir dulnefnum í tímaritum. Átti hún þó eftir að gefa út fjórar ljóðabækur, og voru þær allar með frumsömdum og þýddum ljóðum, en hún fekkst mikið við þýðingar. Í ljóðum sínum yrkir hún m.a. um náttúruna í heimahögum, og hún sér draumsýnir og yrkir ástarljóð, en oft með fágætri gamansemi í bland:


Þú varst eins og bæn sem ég bað
og það blys, er mér lífsgleði jók.
Nú ertu sem óskrifað blað
? ein örk í minnisbók.


Ég elskaði augun þín,
svo orti ég til þín ljóð.
Þú varst einasta ástin mín
það augnablik sem hún stóð.


Hún var einnig meðal fárra djarfra frumherja í því að yrkja órímuð ljóð, og eru nokkur slík í hennar fyrstu bók þegar árið 1930. Eru þar m.a. ljóðsagan Dauði, og hún orti og þýddi m.a. prósaljóð auk hins vanabundnara forms á atómljóðum:


ENGIN TÁR


Engin tár falla oftar
af augum þínum
engin orð heyrast framar
af vörum þínum
ekkert bros, engin ástúð
í augum þínum


En hefðbundnir hættir voru henni tamastir, þó oft í léttari formunum í anda órímaðra Edduljóða. Bundnari form eins og hrynhenda (Liljulag) léku henni þó einnig á tungu, eins og sést af framlagi hennar til Kalevala-þýðingarinnar. Meðal ljóða hennar í hefðbundnu formi er 'Blinda stúlkan', falleg innlifun um 15 ára stúlku, 'Stúlkan þín' og þetta ljóð (úr 2. bók hennar), 'Ó, flýt þér':


Ó, flýt þér yfir sundið, vestanvari,
og vindur, berðu með þér ilmrík blóm
og kveðju ? en bíddu síðan eftir svari
og sendu endurhljóm í brimsins róm.


Og dularfyllstu löngun barnsins berðu,
sem blómilm gegnum vorloft hitaþungt.
? Gullskýin leika um loftið frjálst, þar ferðu.
Ó, finndu konungshjarta stórt og ungt.


"Fegurðarþráin og hin heita lífsæð, það eru einkennin á skáldskap Sigríðar Einars frá Munaðarnesi," sagði Sigurveig Guðmundsdóttir í Hafnarfirði. Vilborg Dagbjartsdóttir telur, að Sigríður hafi haft áhrif á ung skáld á sínum tíma, m.a. hafi Jón úr Vör og Steinn Steinarr, helztu frumkvöðlar frjáls forms í íslenzkri ljóðagerð, lært af henni. Steinn var löngum daglegur gestur hennar og skjólstæðingur, enda var hún ávallt gjafmild og rausnarleg við alla sem áttu við skort að búa. Margir fátækir listamenn áttu vísan beina í híbýlum þeirra Halldóru B. Björnsson á Grundarstíg 2, og kommúnistar héldu þar sellufundi. En sem dæmi um gjafmildi Sigríðar má nefna, að á ferðinni frá Þýzkalandi var samferða henni félaus listmálari frá Íslandi, og gaf hún honum aleigu sína, 20 danskar krónur, svo að hann gæti leyst út farangur sinn og komizt á heimaslóðir.


Sigríður var lýrískt skáld, en fjarri allri væmni eða hátíðleik; þvert á móti einkenndu glettni og gamansemi mörg ljóða hennar. "Hún varðveitti ungdóm sálar sinnar til hinztu stundar" og kenndi til í stormum sinnar tíðar (SG). Ljóðabækur hennar voru: Kveður í runni, útgefin 1930, og fekk hún engin ritlaun fyrir hana, þótt bókin hefði selzt upp í búðum. Milli lækjar og ár var 2. ljóðabók hennar, 1956, og á eftir fylgdu Laufþytur, 1970, og Í svölu rjóðri, 1971. Frá 1956 naut hún skáldastyrks úr ríkissjóði. Hún þýddi ennfremur þessar skáldsögur: Ljós í myrkrinu eftir Michel de Castillo (útg. 1966), Hellarnir á tunglinu eftir Patrick Moore og Blómsturkarfan eftir Christoph von Schmid. Þá lauk hún við þýðinguna á síðasta kafla finnsku goðsagnaljóðanna Kalevala, útg. 1962, en Karl Ísfeld, barnsfaðir hennar, hafði þýtt mestallt verkið og gert það með miklum glæsibrag, en féll frá aðeins 54 ára gamall, áður en hann fengi því lokið. Hafði hann leitað athvarfs hjá Sigríði á efri æviárum sínum, þá fársjúkur; bjuggu þau þá saman í átta ár; hann náði þá nokkurri heilsu aftur og lagði mikla alúð í þýðinguna á Kalevala, sem Sigríður lauk svo við. "Svo vel hefur hún gengið frá samskeytum þessara miklu ljóða, að hvergi sést missmíði á. Þannig hefur hún greypt saman þennan dýrgrip finnskra bókmennta, að úr ófullgerðu verki varð listræn heild. Slíkt gera ekki aðrir en sannir listamenn" (SG). Sigríður átti ennfremur ljóð í ýmsum vönduðum safnritum, m.a. í Borgfirzkum ljóðum, 1947, Pennaslóðum, 1950, Svo frjáls vertu móðir, 1954, þrjú ljóð í Íslenzkum ljóðum 1954?1963 (1972), tíu í Íslenzkum ljóðum 1964?1973 (1976), tvö (Löng nótt; Í leit) í Íslenzku ljóðasafni AB (1977) og tíu ljóð í Stúlku, 1997. Þá átti hún bæði ljóð og smásögur í ýmsum tímaritum, þ.á m. Sólhvörfum og 19. júní.


Jón Valur Jensson tók saman.


Heimildir:


Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson: Íslenzkt skáldatal m?ö, Rv. 1976, bls. 35.
SG = Sigurveig Guðmundsdóttir: Sigríður Einars frá Munaðarnesi, í Tímariti Máls og menningar, 1973, s. 176?183.
Vilborg Dagbjartsdóttir: æviágrip Sigríðar í Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, V (1984), 189?90.
Vilborg Dagbjartsdóttir: Mademoiselle S.E., í Skírni, 1990, haust, bls. 391?403.
Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun, 1997. Helga Kress valdi efnið og bjó til prentunar. Bls. 242?250.
Íslenzkt ljóðasafn IV, A (AB 1977, Kristján Karlsson valdi ljóðin), 57?58, 349.
Ljóðabækur S.E., Milli lækjar og ár, Laufþytur og Í svölu rjóðri.
Borgfirzkar æviskrár II, 125 (Einar Hjálmsson og Málfríður Kristjana Björnsdóttir).
Íslenzk ljóð 1954?1963 og 1964?1973 (Menningarsjóður, 1972, 1976; þekktir rithöfundar völdu ljóðin).

   

Kort af kirkjugarðinum:
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Duftgarðurinn í Fossvogi var tekinn í notkun 1950 skömmu eftir vígslu Fossvogskirkju. Árið 1991 var hafist handa um viðamikla endurgerð duftgarðsins, sem nú er lokið.
.Á miðju sumri 1994 hófst vinna við gerð duftreits fyrir fóstur á svæði ofan sumarbústaðarlands, sem gengur inn í kirkjugarðinn að sunnanverðu. Reiturinn var vígður 16. september 1994.
.
. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Thumbnail_Duftreitur í Fossvogi [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
3407
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is