Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör


Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Hannes Hafstein
Heimili:
Fæðingardagur:
04-12-1861
Staða:
Ráðherra Skáld
Dánardagur:
13-12-1922
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1922
Reitur:
Z-408
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Ítarefnið er kostað af KGRP.

Hannes Hafstein
Hannes Þórður Hafstein var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. desember 1861. Foreldrar hans voru Jörgen Pétur Havstein, sem var amtmaður norðan lands í 20 ár, og 3. k.h. Kristjana Gunnarsdóttir frá Laufási, alsystir Tryggva bankastjóra. Hannes varð stúdent frá Lærða skólanum í Reykjavík 1880 og cand. juris frá Kaupmannahafnarháskóla 1886. Hann orti mikið í Kaupmannahöfn, var þar einn Verðandimanna, málsvari raunsæisstefnu (realisma) í bókmenntum, enda lærisveinn og í vinfengi við Georg Brandes, áhrifamesta andlegan leiðtoga Danmerkur. Var Hannes orðinn snilldarskáld og þjóðkunnur af ljóðum sínum, er hann kom heim til Íslands hálfþrítugur. Hann var settur sýslumaður í Dalasýslu þá um haustið og málaflutningsmaður við landsyfirréttinn fyrri hluta árs 1887 og 1890-93. Landshöfðingjaritari frá 1. sept. 1889 og endurskoðandi við Landsbanka Íslands 1890-1896. Skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1895, tók við hvoru tveggja vorið 1896. Ungur hóf hann afskipti af þjóðmálum, var fulltrúi á Þingvallafundinum 1888; foringi Heimastjórnarflokksins 1901-12. Var hann hár vexti, fríður sýnum, skemmtilegur í viðkynningu, glæsilegur á velli og sem fæddur foringi. Hannes var alþingismaður Ísafjarðarsýslu 1900-02 og Eyfirðinga 1903-16; 1. landskjörinn alþm. 1916 (er landskosningar fóru fram í fyrsta sinn) og allt til 1922, en sat síðast á Alþingi sumarið 1917. Skipaður ráðherra Íslands, fyrstur Íslendinga, 31. jan. 1904 frá 1. febr. sama árs, en með því komst stjórnarráðsyfirstjórn inn í landið. Fekk lausn frá því embætti 31. marz 1909. Varð bankastjóri í Íslandsbanka degi síðar, en skipaður ráðherra Íslands á ný frá 25. júlí 1912; fekk lausn 21. júlí 1914. Aðalviðfangsefni í ráðherratíð hans voru ritsímamálið og viðleitni til samkomulags um tengsl Íslands og Danmerkur. Hann var kjarkmikill og framfarasinnaður stjórnmálamaður, starfssamur, þegar hann hafði áhugamálum að sinna, en hneigður til glaðværðar. Forseti sameinaðs þings var hann 1912. Skipaður í milliþinganefnd um sambandsmálið 1907, varaformaður hennar, skipaður í mþn. um rannsókn á fjármálum landins 1911 og aðra um skattamál; kosinn í velferðarnefnd 1914. Hannes varð svo 1. sept. 1914 bankastjóri í Íslandsbanka. Missti hann heilsu (fekk slag) þá um haustið, en gegndi því starfi til 1917, er hann varð aftur fyrir heilsubresti, sem hann náði sér ekki af, og varð þá að hætta bankastjórastarfi. Hannes lézt 13. desember 1922 í Reykjavík. Hann var eitt bezta ljóðskáld sinnar tíðar og naut fyrir það mikilla vinsælda. Átti hlut að bókinni Verðandi, Khöfn 1882. Fyrsta bók hans sjálfs var Ýmisleg ljóðmæli, Rv. 1893; aukin útgáfa 1916 og fleiri útgáfur síðar, m.a. heildarútgáfa 1968 í umsjá Tómasar Guðmundssonar, einnig sérútgáfur úr verkum hans. Eitt glæsilegasta verk hans, sem jafnan verður talið dæmigert um framfarahug hans og trú, er kvæðið Aldamótin (Drottinn, sem veittir frægð og heill til forna ...), flutt í miklu samsæti á nýjársdag 1901. Hannes skrifaði gott Æfiágrip Jónasar Hallgrímssonar framan við Ljóðmæli hans 1883 (endurútgefið nokkrum sinnum), gaf einnig út Kvæði og kviðlinga Bólu-Hjálmars. Ritaði um Þjóðfundinn 1851 í Andvara 1902, um Georg Brandes, Cavour og Garibaldi, ýmsar skýrslur í Landshagsskýrslum, eina gamansögu, fáeinar þýðingar, m.a. um George Sand, auk ljóðaþýðinga, t.d. var hann einn mesti Heineþýðandi Íslendinga. Hannes var heiðursfélagi Hins íslenzka bókmenntafélags, Dannebrogmaður, riddari og kommandör 2. og 1. stigs af Dannebrogorðunni, stórofficeri í frönsku heiðursfylkingunni, stórkrossriddari af St. Olavsorðunni. Honum var reist líkneski í Reykjavík, sem stendur fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Kona hans (1889) var Ragnheiður Stefánsdóttir Thordersen, f. 1871, d. 1913, kjördóttir Sigurðar lektors Melsted. Var hún fríðleikskona og skörungur. Þau áttu tíu börn, þar af átta sem upp komust, og eru ýmsir afkomendur þeirra þekktir menn.


Heimildir:
Lögfræðingatal (1976), 262-4; þar er vísað til fjölda annarra heimilda.
Íslenzkar æviskrár II, 312-13.
Hver er maðurinn? I, 276-7.
Merkir Íslendingar, IV, 351-389, eftir Þorstein Gíslason ritstjóra.
Halldór Hermannsson: Icelandic author to-day, Ithaca 1913.
Bjarni Benediktsson, Land og lýðveldi II, 173-185: Stjórnmálamaðurinn Hannes Hafstein.
Vilhjálmur Þ. Gíslason: Hannes Hafstein, inngangur að úrvalsljóðaútg. 1946.
Tómas Guðmundsson: inngangur að Heildarútgáfu af ljóðum H.H., Rv. 1968.
Eggert Ásgeirsson: æviágrip Hannesar í Briemsætt, II (1990), s. 429-32.
Sigurður A. Magnússon: Þeir settu svip á öldina, íslenzkir stjórnmálamenn (1983), bls. 35-51. Í Niðjaskrá í sama riti er yfirlit um afkomendur Hannesar, bls. VI-X, en ýtarlegra niðjatal með myndum er í Briemsætt II, 428-62.
Aðalheimild um ævi Hannesar er þó hið mikla verk Kristjáns Albertssonar: Hannes Hafstein, ævisaga í þremur bindum, Rv. 1961-64, endurútgefin 1985 og í þriðja sinn í styttri útgáfu Jakobs F. Ásgeirssonar 2004.
Guðjón Friðriksson vinnur nú að nýrri ævisögu Hannesar Hafstein.

Jón Valur Jensson tók saman.

   

Kort af kirkjugarðinum:
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10933
Símanúmer:
5852704
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is