Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Þorbjörg Sveinsdóttir
Heimili:
Fæðingardagur:
00-00-1827
Staða:
Ljósmóðir
Dánardagur:
06-01-1903
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
00-00-1903
Reitur:
N-505
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Neðangreind ævidrög eru kostuð af KGRP:

Þorbjörg Sveinsdóttir
ljósmóðir og kvenréttindafrömuður


Þorbjörg Sveinsdóttir var fædd að Sandfelli í Öræfum síðla árs 1827, dóttir hjónanna Sveins Benediktssonar, prests þar, og Kristínar Jónsdóttur. Þau fluttust síðar sama ár að Mýrum í Álftaveri, þar sem sr. Sveinn þjónaði, unz hann lézt 1849. Þorbjörg stóð fyrir búi ásamt móður sinni á hluta af Mýrum á móti tengdasyni Kristínar, sr. Jóhanni Benediktssyni, föður Ólafíu rithöfundar, hinnar miklu hugsjónakonu, sem ólst upp hjá móðursystur sinni Þorbjörgu. Árið 1853 fluttist Þorbjörg með móður sinni og bróður, Benedikt (siðar sýslumanni, föður Einars skálds), norður í Skagafjörð, en fór nokkru síðar utan til náms í ljósmæðrafræðum við Fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn, veturinn 1855-56, lauk prófi þaðan 30. apríl 1856. Kom þá heim og var starfandi ljósmóðir í Reykjavík frá 1856 og jafnframt falin verkleg kennsla ljósmæðranema; embættisljósmóðir í Rvík 1864-1902. Var mjög rómað læknisvit hennar og snarræði. Hún elskaði alla bágstadda, sagði Þórhallur biskup um hana í líkræðu, og var öruggur talsmaður þeirra. Eins reis hún snemma öndverð gegn þeirri skoðun, að starfssvið kvenna væri einungis innan veggja heimilisins. Barðist hún fyrir því, að konur fengju aukin réttindi, og var sjálf frumherji meðal kynsystra sinna í því að taka þátt í umræðum um þjóðmál. Þó hafði hún formlega séð ekki málfrelsi á kosningafundum, það höfðu kjósendur einir, en konur höfðu þá ekki kosningarétt. En eins og Þórhallur biskup sagði: "Áhugi hennar og mælskukraftur var stórveldi í þessum bæ ... Það hefði engum forseta á fundi kjósenda hér í bæ haldizt það uppi að neita henni um orðið ... Hún var undanþegin harðstjórn tízkunnar ? hún ein."


Þorbjörg hafði ung lesið rit og ræður Jóns Sigurðssonar, og í viðræðum við Benedikt bróður sinn, sem oft snerust um landsmál, öðlaðist hún þekkingu og þroska til að fjalla um þessi mál. Var hún rammur stuðningsmaður hans í stjórnmálum. Þorbjörg hélt lengst af heimili að Skólavörðustig 11 með móður sinni og fósturdóttur; hjá þeim bjuggu iðulega ljósmæðranemar og skólapiltar, og þar var samkomustaður stjórnmálamanna. Þegar konungur synjaði staðfestingar á frumvarpi um stofnun háskóla á Íslandi, er Alþingi hafði samþykkt 1893, hóf Þorbjörg öfluga hreyfingu kvenna til styrktar háskólamálinu og efndi 26. jan. 1894 til fundar í Rvík með um 200 konum. Var hún ræðumaður á fundinum, sem varð upphaf Hins íslenzka kvenfélags, stjórnmálafélags, er vinna skyldi að auknum réttindum konum til handa og efla menningu þeirra og menntun með samtökum og félagsskap. Félagsdeildir voru stofnaðar utan Reykjavíkur. Í fjögur ár var gefið út ársrit, en þær Þorbjörg og Ólafía fósturdóttir hennar voru lífið og sálin í ritun þess og útgáfu. Fyrsti forseti félagsins var Sigþrúður Friðriksdóttir, kona Jóns háyfirdómara Péturssonar, en Þorbjörg gjaldkeri til 1897, síðan formaður til æviloka. Var félagsstarfið þróttmikið undir hennar stjórn, en dofnaði yfir því fyrst í stað eftir andlát hennar. Hún starfaði einnig að bindindismálum og málum KFUM og K, var meðstofnandi Hvítabandsins í Rvík 26. apr. 1895 og í fyrstu stjórn. Þorbjörg hafði mikil afskipti af s.k. Elliðaármálum vegna laxagengdar í ánum. 2. ág. 1897 lét hún draga Hvítbláinn að hún á þjóðhátíð í Rvík, en hann hafði Ólafía saumað í húsi hennar að fyrirsögn Einars skálds, frænda þeirra. Þorbjörg féll frá 6. janúar 1903, varð mörgum harmdauði, og var gefið út um hana minningarrit. Þorbjörg var ógift og barnlaus. Árið 1927 lét Hið ísl. kvenfélag reisa henni og Ólafíu minnisvarða á legstað þeirra í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Frímerki með mynd hennar var gefið út 1982 í flokknum Merkir Íslendingar. Þorbjörg var "sá kvenskörungur, að þjóðin öll minnist þess með hlýjum fögnuði, að ættjörðin getur enn alið slíka dóttur," sagði Þórhallur biskup við útför hennar. Matthías Jochumsson orti eftir hana fagurt erfiljóð. Þar er þetta þekkta vers:


Harða, blíða, heita, sterka sál,
hjarta þitt var eldur, gull og stál,
ólíkt mér, en allt eins fyrir það
ertu gróin við minn hjartastað.


Helztu heimildir:
Íslenzkar æviskrár V, 83-84.
Ljósmæður á Íslandi I, 660-661. Þar er góð heimildaskrá.
Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna, II,5-7 (eftir Sv.Þ. sem byggði að mestu á ritinu Þorbjörg Sveinsdóttir, minningarrit, Rv. 1908).
Guðjón Friðriksson: Einar Benediktsson, I. bindi, víða (sjá nafnaskrá).


Jón Valur Jensson ættfræðingur tók saman.

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10973
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is