Gardur.is
Veftré
Hafðu samband
Spurningar & svör










Ný bálstofa á Íslandi    

    

    

    

    


     

Einstaklingurinn:
Nafn:
Snorri Hjartarson
Heimili:
Eiríksgötu 27
Fæðingardagur:
22-04-1906
Staða:
Rithöfundur
Dánardagur:
27-12-1986
Kirkjugarður:
Hólavallagarður við Suðurgötu
Jarðsetningardagur:
07-01-1987
Reitur:
E-1-3
Annað:
Senda athugasemd. Umhirðubeiðni. Panta sumarblóm.

Ítarefni. Þessi grein er kostuð af KGRP.

Meistari endursköpunar í ljóðagerð:

Snorri Hjartarson

Snorri Hjartarson var fæddur þann 22. apríl 1906 á Hvanneyri í Borgarfirði, einn þriggja sona Hjartar Snorrasonar (1859?1925) búfræðings, kennara við búnaðarskólann í Ólafsdal 1892?4, skólastjóra búnaðarskólans á Hvanneyri 1894?1907, bónda á Skeljabrekku ytri í Andakíl 1907?15 og í Arnarholti í Stafholtstungum 1915?dd., alþingismanns Borgfirðinga 1914?15, landskjörins 1916?25, og konu hans Ragnheiðar (1873?1953) Torfadóttur skólastjóra í Ólafsdal Bjarnasonar. Bræður Snorra voru Torfi (1902?1996) tollstjóri og sáttasemjari í Reykjavík og Ásgeir (1910?1974) sagnfræðingur, bókavörður og leiklistargagnrýnandi.

Snorri ólst upp um átta ára skeið á Skeljabrekku og frá níu ára aldri í Arnarholti, kippkorn frá árbökkum Norðurár; gætir þessa uppruna og borgfirzku heiðalandanna í mörgum ljóða hans. Hann var sendur til náms í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 1920?22 og gekk í 4. og 5. bekk í Menntaskólanum í Reykjavík, en hætti námi 1926 vegna brjóstveiki (berkla); var hann jafnan síðan heilsutæpur, einkum á veturna, og varð þó langlífur. Snemma hóf hann að yrkja, á 16. ári, og varð honum það minnisstætt, þegar "það rann allt í einu upp fyrir mér, að ég gat ort, gat gefið tilfinningum mínum og hugsunum útrás í kvæði. Það var mikil stund," sem hann mundi ávallt síðan: "staðinn, birtuna, blæinn á veðrinu. En kvæðið er gleymt eins og flest sem varð til á þeim dögum." Milli 17 ára og tvítugs orti hann "ósköpin öll ? allt sem ég sá og lifði var ný reynsla, það varð að ljóði, og þá var blessuð sjálfskrítíkin ekki komin til skjalanna, a.m.k. ekki að neinu ráði." En hann "slapp við það" að gefa út bók, "birti aðeins nokkur kvæði í tímaritum, en þá var ég búinn að fá hugmynd um listræn vinnubrögð og farinn að gera meiri kröfur til sjálfs mín," sagði hann í útvarpsviðtali löngu síðar (1958).

24ra ára hélt hann utan til listnáms í Kaupmannahöfn, 1930, og var um tíma hjá Jóni Stefánssyni listmálara, en á Listaháskólanum (Kunstakademiet) í Osló hjá prófessor Axel Revold veturinn 1931?2 og var þá til heimilis hjá Jóni Engilberts. Málverkið, sem hér birtist mynd af, er sjálfsmynd Snorra. En svo er sagt, að hann "lagði frá sér pensilinn og fór að mála með orðum." Setti hann ekki lit á léreft síðan að eigin sögn.

Ritstörf stundaði hann frá 1932. Var frumraun hans skáldsaga á norsku, Höit flyver ravnen, sem fjallaði "um kjör listamanna milli ástar sinnar og listar" (StE). Var henni vel tekið af gagnrýnendum og lesendum. Árið 1932 hafði hann gengið að eiga norska konu, Solveigu Björnstad. Þau slitu samvistum, þegar hann hélt heim til Íslands 1936. Þá hafði móðir hans selt Arnarholt. Dvaldist hann um skeið við skriftir á Stóra-Núpi í Hreppum (nálægt Þjórsá) og á Ísafirði hjá Torfa bróður sínum, sem þar var þá sýslumaður. Var þetta á síðustu kreppuárunum og erfitt um vik að fá vinnu. Í viðtali síðar sagði Snorri svo frá um togstreitu sína (um 1936) milli hins gamla arfs fósturjarðarinnar og þess, sem hann hafði talið framtíðarhlutverk sitt í Noregi: "... En landið og tungan kölluðu á mig. Ég var á Íslandi einn vetur eftir þetta með aðra skáldsögu í smíðum, á norsku. En ég sá hversu fáránlegt þetta var, að skrifa á norsku á Íslandi. Ég snéri mér að ljóðlistinni þegar ég kom alkominn heim. Fyrsta [ljóða]bókin einkenndist einmitt af fögnuði mínum yfir að vera kominn heim til lands míns og tungu. Þar ber einnig mikið á málaranum. Ég hugsaði ekki mikið um hvort ég hefði eitthvað nýtt fram að færa á þessum tíma, þörfin að tjá mig knúði mig áfram." Þrátt fyrir orð Snorra um skáldsögu sína sér Páll Valsson bókmenntafræðingur mikil "hugmyndaleg og stílleg líkindi með sögunni og síðari ljóðum Snorra," í viðhorfi til náttúrunnar, sem sögumaður upphefur, í tengslum við fósturjörðina, togstreitu hans vegna sálufélaga og "leit manns að lífsskoðun og stöðu í lífinu."

Frá 1939 átti Snorri heima í Reykjavík, í húsi móður sinnar við Eiríksgötu. Hann var bókavörður við Bæjarbókasafn (síðar Borgarbókasafn) Reykjavíkur 1939?43 og yfirbókavörður 1943?66. Kunnugt er um a.m.k. fimm kvæði Snorra, sem birtust á prenti á undan skáldsögu hans: þrjú í Eimreiðinni 1930 og tvö í Iðunni 1931; eru þau síðarnefndu einföld, háttbundin náttúruljóð ungs og ómótaðs skálds, með opinskárri, ófimlegri persónubrag en tíðkast í bókum hans. Þrátt fyrir ýmislegt, sem minnir þar á orðfæri hans síðar, er erfitt að ímynda sér, að þar fari stórskáld í uppsiglingu.

Fyrsta ljóðabók Snorra, Kvæði, kom út lýðveldisárið 1944, en í henni voru ljóð ort frá 1940. "Það er næsta óvenjulegt að ljóðskáld birti sína fyrstu ljóðabók 38 ára gamalt. En þegar hún kom var Snorri orðinn fullþroska skáld, og meira en svo" (NPN). Stefán prófessor Einarsson sagði síðar, að hún væri "merkileg byrjandabók, frumlegri en nokkur síðan á dögum Kvæðakvers Laxness, því þótt Steinn Steinarr yrði nýtískulegri áður lyki, þá sá það enginn á fyrstu bók hans." En Stefán tekur þó líka dýpra í árinni í mati sínu á þessari bók, því að honum er augljós snilld skáldsins, eins og í upphafsljóðinu 'Í Úlfdölum' og í hljóm- og litfegurð ljóða hans, og hann vottar lotningu sína fyrir "hinu stórfenglega lokakvæði, 'Það kallar þrá'." Samt telur hann ljóð hans "ekki ávallt auðveld aflestrar" þrátt fyrir listgildi þeirra, og um aðra ljóðabók skáldsins, Á Gnitaheiði, fer hann aðeins fáum orðum, án raunverulegs mats á henni.

Annar bókmenntagagnrýnandi, Kristinn E. Andrésson, var enn skyggnari á hina einstöku yfirburði Snorra og veitti honum fúslega þann heiður, sem hann verðskuldaði, með ritdómi sínum um Kvæði, sem birtur var 1949. Þar ber hann því vitni, hvernig fegurð ljóða Snorra "birti manni allt líf í nýrri dýrð," lýsir því, hvernig upphafsljóðið "varð um marga daga ljósið sem umvafði mann," eftir að hann kynntist því fyrst. Ljóðið er í níu versum, og eru þessi fyrst:

 

Það gisti óður

minn eyðiskóg

er ófætt vor

bjó í kvistum,

með morgunsvala

á sólardyr

leið svefninn ylfrjór

og góður.

Úr dögg og eldi

í eirrautt lim

óf ársól blóm

minna drauma

og kulið tárin

úr krónum þeim

sem koss á brár mínar

felldi.

Og tónaseiður

og svanaflug

úr suðri logana

glæddu;

í heiðri vordýrð

skein veröld mín,

hver vegur opinn

og greiður.

 

Kristni segist svo frá: "Svo framarlega sem íslenzkt kvæði fær uppljómað Íslendings hug, er þetta kvæði Snorra Hjartarsonar, Í Úlfdölum, til þess fallið." Hann kallar það sinfóníu, "og það eru fá ljóð á íslenzka tungu sem kalla eins tónskáldið. Að innileik tilfinninga og líkingafegurð er kvæðið einstakt." Þá rekur Kristinn það fyrir lesandanum, hvernig kvæðið er "glitofið rími", sem leynir þó á sér, því að Snorri notar mikið skothendingar (hálfrím, eins og tíðkaðist í dróttkvæðum háttum), auk alrímuðu orðanna í 1. og 8. línu hvers erindis. Um þetta er því reyndar við að bæta, að Snorri er meistarinn í listilegri notkun hálfríms á 20. öld, en það leysti á sinn hátt um fjötra skáldmálsins við gamalkunnugar, margþvældar endurtekningar ríms og takmarkaðra, ofnýttra hugmynda. Brot af stefnuskrá hans í þessum efnum má skynja í inngangi hans (tveimur árum síðar) að Ljóðum frá ýmsum löndum eftir Magnús Ásgeirsson (einkum á bls. xx?xxii), þar sem hann, þrátt fyrir aðdáun á rímlist Magnúsar, mælist gegn því að ofnota rímið og bendir jafnvel á órímaða þýðingu M.Á. sem beri langt af rímaðri þýðingu af sama ljóði. "Skáld sem fer þannig með óbundin ljóð á ekki að leyfa sér að fella þau í rímaðar skorður," ályktar Snorri, og sjálfur fylgdi hann þessum orðum eftir, þó umfram allt í tveimur síðustu ljóðabókum sínum.

Aftur að Kvæðum. Í upphafsljóðinu er hljómsnild Snorra ekki sízt falin í skothendu innríminu, sem þó hefur sín duldu áhrif; í öðrum ljóðum er hálfrímið áberandi sem endarím, svo sem í hinum seiðmögnuðu sonnettum 'Leit' og 'Bið', í heillandi rómantísku þulunni 'Þjóðlag' ("Veiztu að ég bíð þín ..."), sem rétt virðist að kalla ljóð sem fagni hinu endurreista lýðveldi, þótt í ástarljóðs-búningi sé; einnig í undrakvæðinu 'Nú greiðist þokan sundur' ? sem virðist bæði eiga sér rót í riddarasögum miðalda og tilfinningareynslu skáldsins ? og í sálarhreinsandi, lífsþyrstu vorljóði: 'Vef hlýjum heiðum örmum'. En ekki sízt er skothent endarímið hófsamt og þó slagþungt einkenni á þeirri þróttmiklu, stórhuga og eiginlegu stefnuskrá hins nýframkomna skálds, sem birtist í lokaljóðinu, 'Það kallar þrá'. Í tign sinni minnir það á mestu ljóð erlendra höfuðskálda; út frá orðum hans í viðtali við Knút Bruun í Ríkisútvarpinu 1958 virðist ekki fráleitt að ætla, að þetta sé eitt þeirra ljóða, sem nutu þeirra lærdóma sem hann gat dregið af nýbreytni í ljóðformi í kveðskap enskumælandi 20. aldar skálda, t.d. Yeats, Eliots, Audens o.fl., en Snorri las mikið enska lýrik fyrri og síðari tíma, auk þess að vera vel heima í norrænum kveðskap. "Og sumum þessara skálda á ég margt að þakka," sagði hann. "Þau hafa opnað á mér augun fyrir ýmsum atriðum í ljóðformi, sem voru mér áður óljós, stutt mig og örvað, hjálpað mér að stilla hljóðfærið, ....." Skáldstefna Írans W. B. Yeats virðist ekki ólíklegur áhrifavaldur á 'Þjóðlag' Snorra o.fl. kvæði, þar sem eimir af ævintýrinu, stundum með þjóðþulu- eða vikivakabrag; lík endurleysandi áhrif höfðu reyndar borizt hingað með Davíð Stefánssyni og Stefáni frá Hvítadal, en hitt er ekki síður mikilvægt, að þjóðvísnasafn Ólafs Davíðssonar, 'Vikivakar og þulur', var ein af kærustu bókum Snorra við hliðina á Jónasarkvæðum, "og viðurlög og þulubrot hafa lifað í mér síðan með sínu undarlega seiðmagni," sagði hann í útvarpsviðtali 1958. Eftirfarandi orð hans eru einnig lærdómsrík: "Það slítur ekkert skáld tengsl við fortíðina án þess að bíða af því tjón, sízt slíka fortíð sem við eigum í þessum efnum. Mér finnst það skylda hvers nútímaskálds á Íslandi að kynna sér eða gera sér innlíft allt, sem bezt hefur verið ort á tungunni frá upphafi til þessa dags, og í annan stað að fylgjast, eftir því sem völ er á, með list þeirra nútímaskálda erlendra sem hæst ber, læra af þeim, en ganga þeim ekki á hönd. Hvort ég svo yrki rímað eða ekki, skiptir í rauninni ekki máli, þó að mér finnist það undarlegt að vilja fyrir alla muni losna við sem flest hljóðfæri úr orkestri ljóðsins, í stað þess að geta gripið til allra möguleika sem ljóðformið býr yfir. En hvað um það, aðalatriðið er, að viðfangsefnin séu tekin nýjum tökum á einhvern hátt, varpað á þau nýju og óvæntu ljósi. Íslenzk ljóðlist blómgast því aðeins, að hún breytist og endurnýist með hverri kynslóð. Kyrrstaða er aldrei annað en afturför."

Í ljóðinu 'Það kallar þrá' sameinast nærfærin og brotakennd upplifun Snorra úr heimi bernskunnar, innlifuð samkennd hans við náttúruna, ævintýraleg sýn í draumheima sjáandans, barátta hins fullvaxta skálds við eigin efa, auk þrár eftir sátt við köllun sína og sköpunarmátt, með orðfæri sem minnir á iðju Skalla-Gríms í eldsmiðjunni. Kallast það hugsanlega á við eitthvað í þeim smiðjukvæðum eftir Davíð Stefánsson, Jón Magnússon og Guðmund Böðvarsson, sem Snorri birti sjálfur í Íslenzkri nútímalýrikk 1949, sem og vígalega smíðavísu Vémundar Hrólfssonar frá 9. öld: "Ek bar einn / af ellifu / bana orð. / Blás þú meir!" Meistarasmíð fyrrnefnds ljóðs er þó alfarið sköpun Snorra sjálfs.

Verkið Kvæði er í huga þess, sem þetta ritar, fremsta og fágaðasta fyrsta ljóðabók íslenzkra skálda á miðri og ofanverðri 20. öld. Þar er þó aðeins 21 ljóð. "En meðal þessara fáu kvæða eru sum hinna fegurstu, er ort hafa verið á íslenzku" (KrEA). Þrátt fyrir formsnilld Snorra, sem hann er víðfrægur fyrir og þó ekki í þeim mæli sem vert væri, sýnist rétt ályktað hjá Páli Valssyni, að betur sé viðeigandi að kenna hann við "formleit" en formdýrkun. Yfirvegaður dómur bókmenntafræðinnar um bókina Kvæði, rúmum sex áratugum seinna, kristallast í þessum orðum Njarðar P. Njarðvík: "Þótt ekki hafi allir skilið það þá, sýnir bókin þvílíkt afburða vald á ljóðformi, að hvergi verður að fundið, ekki í einni einustu hendingu."

Bókin Á Gnitaheiði, sem kom út 1952, hafði inni að halda 32 ljóð og hélt áfram þeirri einkennandi braglist, sem Snorri hafði tamið sér, ásamt fleiri nýstárlegum tilraunum í sömu veru, en nú jafnframt með órímuðum ljóðum: þau eru hér 15 allsendis laus við rím af nokkru tagi; í Kvæðum voru engin rímlaus ljóð. Í hinum 17 ljóðunum er rímið þó á stundum lítt áberandi, mikið um skothendur og dreift á óreglubundinn hátt, eins og hann hafði áður tamið sér með glæsilegum hætti, s.s. í lokaljóði Kvæða. Í þessari næstu bók er þó enn haldið til fulls í stuðlasetningu í öllum ljóðum. Listgaldur bókarinnar er engu minni en hinnar fyrri, og eru mörg þessara ljóða alkunn orðin, einkum sonnettan 'Land þjóð og tunga' ? "hollustueiður skáldsins til þess sem því er helgast" (GSt); í bókinni sjálfri hét það ljóð 'Marz 1949', "svo að tilefnið fer ekki á milli mála" (GSt), þ.e.a.s. stofnun Atlantshafsbandalagsins. Þar og víðar í bókinni er þungur undirhljómur af Kalda stríðinu. Í miklu ljóði, 'Í garðinum', verður píslarsaga Jesú frá Nazaret, er hann var svikinn í hendur óvinum sínum, bakgrunnur að innlifun Snorra í þá þjóðernisbaráttu gegn erlendu hervaldi, sem hann tók þátt í ásamt mörgum listbræðrum sínum, og var hann þó "ekki mjög pólitískur í þröngum skilningi þess orðs" (NPN). Sonnettan 'Var þá kallað' tengir þá hugmyndabaráttu við minnisvert atvik úr íslenzkri sögu (frásögnina af því, er Árni Oddsson biskups reið til Alþingis í mikilvægum erindagjörðum, sem Grímur hafði áður ort um). Ljóðið mikla 'Í Eyvindakofaveri' setur sömu þjóðfrelsisbaráttu á svið magnaðra náttúrumynda, umgerðar um líf útilegumannsins Fjalla-Eyvindar. Ennfremur eru hrein og tær náttúruljóð í bókinni, m.a. 'Mig dreymir við hrunið heiðarsel' og 'Á Arnarvatnshæðum'.

Tilraunir hans með ljóðformið birtast hér ekki aðeins í rímlausum háttleysum (sem þó lúta sinni eigin hrynjandi), heldur og í háttbundnu stórljóði, 'Við ána', sem ort er á listilegan hátt í 39 línum með sífellt sömu sex rímorðin (einsrím, identical rhyme); heitir sá bragarháttur sestína (ít. sestine eða sesta rima), þykir einn sá alerfiðasti í skáldskaparfræðum, en er upprunnin hjá trúbadúrum rétt fyrir árið 1200. Kristinn E. Andrésson dregur samt úr hólinu í þessu tilviki, segir að ljóðið sé "rímþraut mikil sem þó uppsker varla laun síns erfiðis, of jafn flaumur án lýsandi stakra mynda" (KrEA II, 58), en á annan mann virkar ljóðið sem kynngihlaðin stemmning. ? Í órímuðum fjórtánlínung: 'Sumarkvöld', hefur Snorri svo gengið veginn til fulls frá tilraunum með skothenduafbrigði sonnettunnar, sem sjá mátti í Kvæðum.

Í hans þriðju ljóðabók, Lauf og stjörnur (1966), eru órímuð ljóð allsráðandi; þar eru einnig fáein óstuðluð með öllu. Hans gamla samherja, Kristni, fannst upphafstónninn "ekki bjartur, ekki með neinum fagnaðarbrag, heldur mjög tempraður og þurr," enda væri "tímanum brugðið" eftir Hírósíma-sprengjuna og Víetnam-stríðið. Vonsvikin og harmurinn, sem Snorri hefði "gefið heita rödd" í 2. ljóðabók sinni, hefðu hér "hljóðnað, en setzt að hjartanu ... og trúin á sósíalismann fengið þungt áfall," einmitt meðan Snorri orti 3. bókina (KrEA II, 270?1):

 

Og ég sagði: þið eruð

þá enn sem fyr

á veginum flóttamannsveginum,


en hvar er nú friðland

hvar fáið þið leynzt

með von ykkar von okkar allra?


Þau horfðu á mig þögul

og hurfu mér sýn

inn í nóttina myrkrið og nóttina.

 

 

Þetta var úr ljóðinu 'Ég heyrði þau nálgast', sem Snorri orti 3. apríl 1957, með innrásina í Ungverjaland að bakgrunni. Heildarsvipur þessarar bókar er haustlegri og dapurlegri en hinna fyrri, en þó eru hér líka töfrandi, persónuleg ljóð eins og 'Auðir bíða vegirnir', lífsvitra, móderníska ljóðið 'Inn á græna skóga', ásamt fjölmörgum heillandi náttúrumyndum; einnig athyglisverð ljóð af erlendum vettvangi, á ferðum skáldsins í Róm og Kaupmannahöfn, þar sem hann m.a. minnist skáldanna Jónasar og Keats, auk fornra minna úr grískum goðsögum og Biblíunni. Snorri er hér sami fegurðar- og náttúrudýrkandinn og áður, og í þessari bók kemur fram eins konar trúarjátning hans á hin æðstu gildi, í ljóðinu fagra, 'Ung móðir', sem vel að merkja er allsendis laust við ljóðstafi:

 

Í yndisleik vorsins

milli blóma og runna

situr ung móðir

með barnið á hnjám sér

andlit hennar sól

bros hennar ylhlýir geislar

Rafael í allri sinni dýrð

 

Fegurð og góðvild

þetta tvennt og eitt

hvað er umkomulausara

í rangsnúnum heimi

Og þó mest af öllu

og mun lifa allt.

 

 

'To kalon kai to agaþon' nefndu hinir fornu Hellenar þetta tvennt, hið fagra og hið góða, sem ætti samleið og nánast samsemd í dygðumprýddum manni. Snorri víkur enn að þessu forna minni og leiðarljósi í ræðu, er hann tók á móti bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs 1981: "Og þó oss virðist einatt hin hvítu öfl tilverunnar, fegurð og góðvild, lítilsmegnug í baráttunni við hin myrku öfl, illsku og græðgi, getur svo farið á einhvern hátt og þrátt fyrir allt, að öfl ljóss og lífs beri sigur úr býtum. Og það verði síðustu orð þessa örstutta ávarps, ósk mín og bæn, að hið fagra og góða, sem er eitt og hið sama, megi lýsa oss leiðina fram." Það má taka undir það með Páli Valssyni, að "trúlega lýsir ekkert [Snorra sjálfum] betur" en einmitt þetta tvennt, sem hann mat mest.

Þeir, sem samstilltir voru orðnir við seiðinn og töfrana í fyrstu ljóðabókum skáldsins, voru að vissu leyti seinteknari til þeirra síðari, en einnig þar þekkja menn grunnhljóm þessara meistara, þótt umbreytzt hafi og geri óskiptar kröfur til lesenda sinna með nýjum og að því er virðist áreynslulitlum töfratökum á ljóðmálinu. "Hann var ekki afkastamikið skáld í bókum talið, miðað við þá staðreynd að maðurinn lifði alla tíð og hrærðist í skáldskap. En þar kemur til sú fullkomnunarkrafa sem hann aðhylltist og taldi nauðsynlega hverjum þeim listamanni sem tæki sig alvarlega" (PV). Um það bera ekki aðeins verk hans vitni, heldur og ummæli hans önnur, s.s. í hinum lærdómsríka inngangi ljóðaúrvals Magnúsar Ásgeirssonar og í útvarpsviðtalinu 1958, en þar sagði hann m.a., að ákaflega mismunandi væri, hve ljóð hans væru lengi að verða til, "daga, viku og mánuði ? og í rauninni veit maður aldrei hvenær kvæði er endanlega lokið. Eitt orð, sem ekki er hið eina rétta orð á sínum stað, er nóg til þess, að ekki er allt með felldu. ? Þó að maður hafi unnið að kvæði langtímum saman, kastað því frá sér og tekið það fram aftur, mega ekki sjást á kvæðinu, þegar því er lokið, nokkur merki þessarar baráttu, engin merki um áreynslu. Ef kvæði lítur ekki út eins og það væri ort í einni andrá, sprottið fram alskapað, þá er það misheppnað og til einskis unnið."

Hér væri hægt að fara út í eiginlega bókmenntagreiningu á orðfæri, myndmáli, myndhverfingum og litanotkun Snorra í ljóðum hans, á táknlegu eðli margra þeirra, notkun trúarminna úr kristnum sið, auk vísana í íslenzkar bókmenntir og menningarsöguna; ennfremur á hugmyndaheimi eða lífsviðhorfum skáldsins, jafnt þjóðfélagslegri köllun hans gagnvart átakatímum og örbirgð sem og sýn hans til hinztu sanninda, en heimspekileg afstaða birtist í mörgum ljóða hans, ekki síður en hjá Steini Steinarr. Þetta er sterkt einkenni á hans síðustu heilu ljóðabók, sem bar titilinn Hauströkkrið yfir mér, og virðist tíminn sem upphafinn þar og standa kyrr í hinu eilífa núi, nunc æternum, þar sem ríkir "friður og samræmi" (PV). Um greiningu á nefndum eðliseinkennum ljóðanna, sem og á þeirri síðustu bók, má vísa til skrifa margra ágætra fræðimanna sem nefndir eru í heimildaskrá hér á eftir. En varðandi þróun skáldhugsunar Snorra er rétt að minnast þess hér, sem Njörður P. Njarðvík ritaði svo fallega, að eftir því sem á leið, "stefndi hann að æ einfaldara ljóðmáli á ytra borði, en um leið dýpri og víðfeðmari hugsun. Það er galdur sem er á fárra valdi, og mætti kannski líkja við lygnan, tæran og djúpan hyl, svo djúpan að tæpast sér til botns."

Ljóðabækur Snorra urðu þannig fjórar alls, auk heildarsafns með bókarauka af 26 áður óbirtum ljóðum. Einnig sá hann um útgáfu margra merkra rita. Snorri var virtur meðal skáldbræðra sinna og umsagnar hans oft leitað, m.a. af Þórbergi Þórðarsyni, áður en ákveðið væri með útgáfu ýmissa verka. Átti Snorri mikinn félagsskap meðal þeirra höfunda, sem fylgdu Máli og menningu og Kristni E. Andréssyni að málum, og hjá forlögum Kristins voru ljóðabækur hans útgefnar. Þó var hann í góðu sambandi við borgaralega höfunda eins og ritstjóra Helgafells, Magnús Ásgeirsson og Tómas. Hann sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1945?50 og var forseti Bandalags íslenzkra listamanna 1957?59. Í báðum þessum félögum var hann síðar kjörinn heiðursfélagi. Fyrir Lauf og stjörnur veittu bókmenntagagnrýnendur honum viðurkenningu sína, Silfurhestinn. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1981 fyrir fjórðu ljóðabók sína, Hauströkkrið yfir mér. Þann 4. okt. 1986 sæmdi heimspekideild Háskóla Íslands hann heiðursdoktorsnafnbót: doctor litterarum Islandicarum honoris causa. ? Snorri lézt þann 27. desember 1986, liðlega áttræður að aldri. ? Með konu sinni, Solveigu Björnstad, sem hann var kvæntur í fjögur ár, var hann barnlaus.

Snorri var í senn svipmikill og karlmannlegur, þótt ekki nyti hann fullrar líkamsheilsu, fríður sýnum, ekki smáfríður. Hann var hógvær maður og góður, ljúfur í viðmóti og tók yngra fólki sem jafningjum. Nátthrafn var hann og morgunsvæfur. Hann hafði yndi af að vera úti í náttúrunni, gekk á fjöll með vinum sínum og ferðaðist um óbyggðir. Þar er kveikjan að ýmsum kvæðanna og einhver dýpsti strengurinn í hans skapandi anda. Hann unni bæði myndlist og tónlist, og var Mozart hans eftirlætistónskáld.

Áhrif Snorra á önnur skáld eru ómæld, en gætir trúlega víða, þótt óbein séu. Páll Valsson telur Snorra hafa "byggt brú" milli hins klassíska ljóðmáls Jónasar Hallgrímssonar og síðari tíma meistara eins og Hannesar Péturssonar og Þorsteins frá Hamri. Jónas er reyndar það skáld, sem Snorri vottar framar öllum hollustu sína, þótt íslenzkir áhrifavaldar hans séu fjölmargir, allt frá Agli Skalla-Grímssyni. En 2. ljóð Kvæða ber einfaldlega nafn Jónasar og nálgast efnið á fágætlega næman hátt og fágaðan, gegnum myndlíkingar úr náttúrunni. Dýpri og duldari þýðingu þessara tengsla Snorra við Jónas geta menn skynjað við lestur ýmissa annarra kvæða skáldsins. Listfeng vandvirknin við nýjar, lýsandi orðmyndanir bera og þessum áhrifum vitni. Þekkt er og ljóð Snorra, 'Hviids Vinstue', sem ort er í minningu Jónasar, á samnefndum stað, kránni þaðan sem hann hélt heim á leið í síðasta sinn. En Snorri lét einnig eftir sig drög að ljóði, sem hann orti á sama degi á sama stað í Kaupmannahöfn, dagsett 17. september, eins og sést í uppkastskveri hans frá þessum tíma (það kver er til sýnis í Þjóðmenningarhúsi ásamt öðrum gögnum úr lífi Snorra, þegar þessi orð eru rituð). Í því síðarnefnda ljóðsuppkasti (án titils), sem kalla verður bersöglara og nærgöngulla en 'Hviids Vinstue' (um leið og það er þó rímað með þeim hætti, að skáldinu hefur ekki þótt það nógu listrænt eða metnaðarfullt til að ljúka því), kallar hann Jónas sjálfan: "dyggðum prýdda hjarta" ? og ávarpar hann: "... því þú ert allt sem öllu máli skiptir." Segir þetta sitt um innstu hugsanir Snorra Hjartarsonar og rótina í skáldgáfu hans.

Útgefin rit Snorra voru þessi: Höit flyver ravnen, skáldsaga, Ósló 1934. Ljóðabækur: Kvæði, Rvík 1944 (með kápumynd eftir Jón Engilberts). Á Gnitaheiði, Rvík 1952. Kvæði 1940?52 (2. útgáfa á framangreindum ljóðum), Rvík 1960. Lauf og stjörnur, Rvík 1966. Hauströkkrið yfir mér, Rvík 1979. Kvæði 1940?1966 (ný útgáfa á framangreindum þremur ljóðabókum; kápumynd og skreytingar: Jón Reykdal), Rvík 1981. Kvæðasafn, Rvík 1992 (útg. Páll Valsson; í þeirri bók eru allar fyrri ljóðabækur hans auk 26 eftirlátinna ljóða). Þar fyrir utan eru ljóðabirtingar í blöðum, tímaritum og safnritum. Hann á t.d. fimm ljóð í bókinni Svo frjáls vertu móðir, sem Mál og menning gaf út á 10 ára afmæli lýðveldisins, fjórtán ljóð í Íslenzkum ljóðum 1944?53 (útgáfu Menningarsjóðs 1958), átta í Íslenzkum ljóðum 1964?73, fjórtán í Íslenzku ljóðasafni, IV, A (útg. Kristján Karlsson, AB 1977), átta í Skólaljóðum (útg. Kristján J. Gunnarsson), fimm ljóð í Íslenskri lýrik (MM 1987), nokkur í Gimsteinum, ljóðum 16 höfunda 1918?1944, og fjórtán í Ljóðum dagsins (Setberg 1995, Sigurbjörn Einarsson valdi efnið). Þá hafa ljóð hans verið þýdd á margar erlendar tungur ? úrval úr þeim og einstök kvæði hafa komið út á norsku, sænsku, finnsku, færeysku, dönsku, ensku, þýzku, frönsku, ítölsku, rúmensku, rússnesku og serbo-króatísku. Hann á t.d. eitt ljóð í bókinni 20th Century Scandinavian Poetry ... 1900?1950, Rv. 1950, s. 20?22 (ljóðið mikla 'Það kallar þrá' eða 'Yearning' í þýðingu Magnúsar Á. Árnasonar). Bókin Lauf og stjörnur var gefin út ásamt úrvali úr fyrri ljóðabókunum í norskri þýðingu Ivars Orgland: Lyng og krater, 1968, og í sænskri þýðingu Inge Knutsson: Löv och stjärnor, 1984, en bókin Hauströkkrið yfir mér í sænskri þýðingu 1980 og norskri 1981 (Höstskyming over mig), auk síðari þýðinga, þ.á m. Brennend fliegt ein Schwan, Münster 1997. Skrá um önnur ritverk hans er helzt að finna í Kvæðasafni hans, Rvík 1992, s. 294, og í nýrri útgáfu Hjartar Pálssonar, 2006, sem og í ritskrá Landsbókasafns (sjá heimildaskrá).

Eftirfarandi útgáfur sá Snorri um: Sól er á morgun, kvæðasafn frá 18. öld og fyrri hluta 19. aldar, Rvík 1945. Heiman eg fór (vasalesbók), 1946 (Snorri gaf út með Gísla Gestssyni og Páli Jónssyni). Íslands þúsund ár, II. bindi, kvæðasafn 1600?1800, Rvík 1947. Sögur frá Noregi (S.H. gaf út og þýddi nokkrar af sögunum), Rvík 1948. Íslenzk ástaljóð (nýtt safn), Rvík 1949. Íslenzk nútímalýrikk ? úrval (útg. S.H. og Kristinn E. Andrésson), Rvík 1949 (endurútg. 1987: Íslensk lýrik). 100 kvæði eftir Stein Steinarr, úrval, Rvík 1949 (Snorri valdi efnið). Ljóðmæli Sveinbjarnar Egilssonar, 2. útg., Rvík 1952. Sögur herlæknisins, 2. útg., Rvík 1955?57. Þá ritaði hann fróðlegan, 23ja bls. inngang að Ljóðum frá ýmsum löndum, úrvali af ljóðaþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar, 1946 (fjallar þar m.a. um orðslistina og vanda og vegsemd þýðinga, bæði bundinna ljóða og óbundinna, auk umfjöllunar um stórvirki þessa skáldbróður síns).

Jón Valur Jensson tók saman.

Heimildir og tilvísanir (auk ljóðabóka Snorra og annarra þegar nefndra rita):


Alþingismannatal 1845?1975, s. 189, og Kennaratal I, 293 (Hjörtur Snorrason).

Íslenzkt skáldatal m?ö, 1976 (höf. Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson), s. 51?52; þar eru tilvísanir í greinar eða bókarkafla um Snorra eftir Jóhann Hjálmarsson, Helga Hálfdanarson, Sverri Hólmarsson og Gunnar Stefánsson).

Bókavarðatal, Rv. 1987, s. 226.

Íslenzkir samtíðarmenn II (1967), 250.

Æviskrár samtíðarmanna III (1984), 144?5.

Páll Valsson: Formáli að bók Snorra: Kvæðasafn, Rvík 1992, s. XIII?XL (= PV); ennfremur 'Ritaskrá' (ritverka Snorra og greina og skrifa annarra um hann) í sömu bók, s. 294?6 (við það mætti bæta ljóði Snorra, 'Heimkoma', sem birtist í bókinni Til Kristins E. Andréssonar 12. júní 1961, s. 55).

Stefán Einarsson: Íslensk bókmenntasaga 874?1960 (= StE.), s. 448?9 (birtir þar hið magnaða lokaerindi ljóðsins 'Það kallar þrá') o.v.

Kristinn E. Andrésson: 'Í Úlfdölum' (ritdómur, = KrEA), Þjóðviljinn 22. maí 1949, endurpr. í bók hans Eyjan hvíta (ritgerðasafn), Rv. 1951, s. 155?7 (þessa merka ritdóms er ekki getið í ritskrá P.V. hér ofar).

Kristinn E. Andrésson: Um íslenzkar bókmenntir, ritgerðir, I?II, Rvík 1976 og 1979, einkum ritdómurinn 'Á Gnitaheiði', II, 54?59 (áður birtur í Tímariti Máls og menningar 1953), en miklu víðar er Snorra getið þar (sjá registur: II, 334) = KrEA I & II.

Jóhann Hjálmarsson: 'Átthagar hvítra söngva', kafli í bók hans Íslenzkri nútímaljóðlist, Rv. 1971, s. 115?125, einnig s. 127, 149, 183, 194 (bendir á áhrif Snorra á Hannes Pétursson) og 207.

Óskar Ó. Halldórsson: Bragur og ljóðstíll, Rv. 1972, s. 133?4.

Jón R. Hjálmarsson: Með þjóðskáldum við þjóðveginn, Rv. 2004, s. 25?28.

Skólaljóð. Kristján J. Gunnarsson valdi kvæðin. Rvík, án ártals, s. 238?243.

Sigurður A. Magnússon: Nýju fötin keisarans, greinar og fyrirlestrar, Rv. 1959, s. 269.

Njörður P. Njarðvík: 'Vegur heim. Snorri Hjartarson 100 ára 22. apríl 2006', grein í Lesbók Morgunblaðsins, 22. apríl 2006, s. 10 = NPN.

Veigamesta bókmenntafræðilega samantektin um verk Snorra mun vera eftir Pál Valsson: Þögnin er eins og þaninn strengur ? Þróun og samfella í skáldskap Snorra Hjartarsonar. Studia Islandica 48, Rv. 1990. Vísast hér til þess rits, þótt ekki hafi það verið notað við samantekt þessa.

Halldór Ásgeirsson myndlistarmaður, bróðursonur skáldsins (samtal 3. maí 2006; hann leyfði einnig góðfúslega þær tilvísanir í ljóð Snorra og viðtöl við hann, sem hér birtast; sbr. og viðtal við Halldór sjálfan í Fréttablaðinu 21. apríl 2006: 'Aldarminning skálds').

Þátturinn 'Það gisti óður minn eyðiskóg' á Rás 1, Ríkisútvarpinu, í umsjá Gunnars Stefánssonar, 22. apríl og 2. maí (endurflutningur) 2006 (= GSt); þar var m.a. endurflutt útvarpsviðtal við Snorra, sem frumflutt var í Útvarpi Reykjavík 28. apríl 1958.

Snorri Hjartarson: 'Tvö kvæði' ['Hrafnaklukkan hringir' og 'Haustkvöld', hvorugt endurbirt í ljóðabókum skáldsins], í Iðunni XV (1931), s. 284?5.

Það gisti óður. Sýningarskrá Þjóðmenningarhúss vegna aldarafmælis Snorra.

Nokkrir textar skrifaðir upp eftir leiðarvísum og handriti á sömu sýningu.

The New Princeton Encyclopedia of Poetry and Poetics, N.Y. 1993, s. 1146.

Lyric Verse, ed. Edwin Rakow, N.Y. 1962, s. 210?12.

Den norsk-isländska skaldediktningen, revid. av Ernst A. Kock, Lund 1946, I, 18.

Landsbókasafn?Háskólabókasafn:http://gegnir.is/(hin fyrsta af 20 vefsíðum með skrá um 199 ritverk eftir eða um Snorra Hjartarson; þar eru einnig skráð mörg tónverk við ljóð eftir hann).

http://www.thjodmenning.is/flokkun/syningar_adal.htm (um sýninguna 'Það gisti óður' í Þjóðmenningarhúsi í tilefni af aldarafmæli Snorra; með mynd).

http://www.gudfraedi.is/annall/gunnlaugur/2006-04-23/22.57.00

http://vma.is/kennsla/tja102/textar/ferskeytlur.htm#sumarnott (ljóð Snorra: Sumarnótt).

http://www.kirkjugardar.is/kgsi/bautast3/steinn.html (með ljóði Snorra: Á Hvalsnesi).

http://vma.is/kennsla/tja102/textar/atomljod.htm#komnirerudagarnir (með því ljóði Snorra).

http://www.hug.hi.is/page/hugvis_heidursdoktorar

   

Gagnvirkt kort af kirkjugarðinum: Stækka kort
Opna PDF kort:

Söguágrip:
Hólavallagarður er hið eiginlega nafn kirkjugarðsins samkvæmt heimildum um vígslu hans 1838. Árið 1932 var land Suðurgötugarðsins á þrotum og voru þá einungis eftir fráteknar grafir. Fram að þessu hefur því verið grafið í frátekna reiti í garðinum og verður svo næstu ár. Samkvæmt 25. gr. laga nr. 36/1993 á eftirlifandi maki rétt á að binda reit við hlið hins látna, ef kostur er. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda frátekinna grafa, en greftrunum fækkar stöðugt. Sjá nánar um sögu garðsins í bókinni Minningarmörk í Hólavallagarði. Sjá nánar á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

Ítarefni kirkjugarðs:
Svipmynd úr garðinum Víðmyndir úr garðinum
Klukknaport í Hólavallagarði (gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu). [ Skoða fleiri myndir ] Engar víðmyndir úr garði
Annað
Heimasíða kirkjugarðsins [ Skoða ]

Almennar upplýsingar :
Nafn tengiliðar:
Ingvar Stefánsson
Fjöldi þekktra legstaða:
10974
Símanúmer:
585-2700
Prófastsdæmi:
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Netfang:
Heimasíða:
https://www.kirkjugardar.is